Drógu úr matarsóun um meira en helming

Átak Krónunnar í að draga úr matarsóun undir merkjum „Síðasti …
Átak Krónunnar í að draga úr matarsóun undir merkjum „Síðasti séns“ hefur minnkað matarsóun í verslununum um helming. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hátt í 300 tonn af pappa sparast árlega hjá Krónunni með þeim skrefum sem fyrirtækið hefur stigið með umhverfisstefnu sinni. Þetta kemur fram í  nýrri samantekt sem fyrirtækið gerði um árangur Krónunnar á sviði umhverfismála. Þá hefur hefur Krónuverslanirnar einnig náð 25 – 50% orkusparnaði og tekist hefur að draga úr matarsóun í verslum um meira en helming, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Meðal þeirra skrefa sem stigin voru var að hætta útsendingu á vikulegum fjölpósti til íslenskra heimila. Þá var einnig hætt að nota pappakassa fyrir grænmeti og þess í stað voru teknir í notkun fjölnota kassar fyrir innflutt grænmeti. Með þessu hefur náðst að spara hátt í 300 tonn af pappa. 

25 – 50% orkusparnaður hefur svo náðst með því að skipta út kælum í verslunum, taka upp led lýsingu og CO2 kælikerfi.

„Átak Krónunnar í að draga úr matarsóun undir merkjum „Síðasti séns“ hefur minnkað matarsóun í verslununum um helming,“ að því er fram kemur í tilkynningunni.

Einnig sé í gangi átak um vitundarvakning um plastnotkun undir merkjum „Þarftu poka“, þá hafi fyrsta Krónuverslunin án plastburðarpoka verið opnuð í Skeifunni nýverið og sömuleiðis hafi verið hætt að bjóða upp á frauðplastbolla á kaffistofum og skrifstofum Krónunnar, en með því sparast um 60.000 bollar árlega.

„Við hjá Krónunni vitum að við getum haft áhrif til góðs á samfélagið sem við búum í og teljum mikilvægt að við leggjum okkar af mörkum. Því höfum við lagt metnað í umverfismál og starfsfólk okkar brennur fyrir þau,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og segir fyrirtækið hvergi nærri hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert