Fjaðrárgljúfri lokað til 1. júní

Umhverfisráðherra hefur staðfest lokun Umhverfisstofnunar á ferðamannasvæði við Fjaðrárgljúfur og verður lokunin framlengd til 1. júní. Er lokunin framkvæmd í öryggisskyni fyrir gesti og til að vernda náttúruna sem liggur undir skemmdum vegna tíðarfars og álags. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun auglýsti lokun á svæðinu við Fjaðrárgljúfur 27. febrúar í tvær vikur, en ráðherra þurfti svo að staðfesta lokunina ætti hún að verða til lengri tíma. Það hefur nú verið gert, en Umhverfisstofnun segir ljóst að ástand göngustígs og gróðurs á svæðinu hafi ekki batnað frá því skyndilokunin tók gildi.

„Vegna verulegrar hættu á tjóni hefur Umhverfisstofnun því ákveðið að framlengja lokunina við Fjaðrárgljúfur til 1. júní næstkomandi, að höfðu samráði við sveitafélagið Skaftárhrepp, landeigendur, hagsmunaaðila og með staðfestingu ráðherra samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd. Ef svæðið verður í stakk búið til að taka á móti gestum án þess að hætta sé á frekari skemmdum, verður svæðið opnað fyrr,“ segir í tilkynningunni.

Stofnunin biður ferðaþjónustuaðila að miðla þessum upplýsingum til viðskiptavina og brýna mikilvægi þess að lokanir á náttúruverndarsvæðum séu virtar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert