Skólaráð Fossvogsskóla hittist kl. 18.00 í gær ásamt fulltrúum frá skóla- og frístundasviði, umhverfis- og skipulagssviði og Frístundamiðstöð Kringlumýrar.
Í tilkynningu frá Aðalbjörgu Ingadóttur, skólastjóra Fossvogsskóla, til foreldra nemenda kom fram að þau hafi augastað á húsnæði þar sem hægt verður að hýsa alla árganga skólans frá 1.-7. bekk út þetta skólaár. Verið er að undirbúa samningagerð vegna þess. Aðalbjörg kvaðst vona að hægt verði að upplýsa nánar um niðurstöðu í dag. Stefnt er að því að halda foreldrafund í skólanum á morgun.
„Dóttir mín er með mikil líkamleg einkenni – þrálátar stíflur við ennis- og kinnholur, sár í munnvikum og mikið exem og sár í hársverði. Hún er alltaf með stíflað nef sem háir henni mjög í íþróttum,“ segir móðir 11 ára stúlku í Fossvogsskóla. Ástæðu þessara veikinda segir móðirin vera slæmt ástand skólans.
Móðirin fór margsinnis með dóttur sína til læknis og sagði að hún hafi átt við heilsufarsvanda að stríða í rúm þrjú ár. Læknar voru farnir að spyrja hvort mygla væri á heimilinu, að því er fram kemur í umfjöllun um ástand Fosssvogsskóla í Morgunblaðinu í dag.