Ríkið vill Tesluna og þyngri dóm yfir Magnúsi

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon. Ljósmynd/Aðsend

Saksóknari fer fram á þyngri dóm yfir Magnúsi Ólafi Garðarssyni, fyrrverandi forstjóra United Silicon, fyrir hraðakstur á Tesla-bifreið hans á Reykjanesbraut í desember 2016 og fyrir að hafa valdið umferðarslysi. Þá vill ríkið að bifreiðin verði gerð upptæk.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Magnús í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi, svipti hann ökuréttindum í tólf mánuði og til að greiða ökumanni sem slasaðist í slysinu 600 þúsund krónur í miskabætur. Þá var honum gert að greiða málskostnað og málsvarnarlaun, um 2,5 milljónir. Dómur var kveðinn upp í febrúar í fyrra en saksóknari áfrýjaði til Landsréttar þar sem aðalmeðferð hófst í morgun.

Í málflutningi saksóknara í morgun var þess krafist að dómurinn yrði þyngdur og gerð krafa um frekari ökuleyfissviptingu. Þá er þess krafist að Tesla-bifreið Magnúsar verði gerð upptæk, en héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu í fyrra.

Skipaður réttargæslumaður mannsins sem slasaðist í umferðarslysinu fer fram á eina milljón króna í miskabætur, auk vaxta. Kom fram að maðurinn væri með 10% varanlega örorku vegna slyssins.

Bifreiðin er af Tesla-gerð.
Bifreiðin er af Tesla-gerð. mbl.is/Golli

Segist hafa spólað þegar hann hnerraði

Fyrir héraðsdómi neitaði Magnús sök og sagðist hafa vandað sig við aksturinn. Hann hafi ætlað fram úr hinni bif­reiðinni en þá hnerrað skyndi­lega með þeim af­leiðing­um að hann hafi misst stjórn á bif­reið sinni.

Við þetta hafi Tesla-bif­reið hans lent með hægra fram­hornið á vinstra aft­ur­hornið á Toyota-bif­reið. Viður­kenndi Magnús að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður en vildi meina að hann hefði ekki verið á 183 kíló­metra hraða á klukku­stund eins og fram kom í ákæru. Taldi hann að það gæti ekki staðist að hann hefði ekið á svo mikl­um hraða.

Rann­sókn­ir á bif­reiðinni sýndu að um 25 sek­únd­um fyr­ir árekst­ur­inn hafi bif­reiðin verið á 183 km/​klst. hraða en einni sek­úndu fyr­ir hann á 116 km/​klst. hraða. Magnús taldi að síðari tal­an væri sú rétta en hann hafi ekki verið að fylgj­ast með hraðamæl­ing­um. Hins veg­ar gæti skýr­ing­in á hærri töl­unni verið sú að hann hafi spólað þegar hann hnerraði.

Teslan enn í vörslu lögreglu

Verjandi Magnúsar fer fram á að málinu verði vísað frá Landsrétti og dómur héraðsdóms verði staðfestur. Til vara fer verjandi fram á að ef Magnús verði sakfelldur muni bótakrafa á hendur honum lækka verulega.

Saksóknari fer fram á að lengja skuli ökuleyfissviptingu Magnúsar, auk þess sem Tesla-bifreiðin verði gerð upptæk. Fyrir dómi kom fram að Tesla-bifreiðin væri enn í vörslu lögreglu, sem lagði hald á hana eftir atvikið.

Héraðsdómur hafnaði hins vegar varanlegri upptöku bílsins, sem saksóknari fer hins vegar fram á að verði gert. Það sé stór hluti ástæðu þess að ákæruvaldið hafi ákveðið að áfrýja dómnum til Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert