Lagðar af stað til byggða með þremenningana

Afar slæmt skyggni er við Frostastaðaháls eins og þessi mynd …
Afar slæmt skyggni er við Frostastaðaháls eins og þessi mynd sem björgunarsveitarmenn tóku í morgunsárið ber með sér. Ljósmynd/Flugbjörgunarsveitin Hellu

Björgunarsveitir eru lagðar af stað aftur til byggða með mennina þrjá sem fóru niður um vök við Hnausapoll á Fjallabaksleið. Þetta segir Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, sem stjórnaði aðgerðum björgunarsveita. Afar slæmt veður var og er enn á þessum slóðum og stóðu björgunarsveitir frá Hvolsvelli, Hellu og Flúðum í ströngu í nótt við að ná til mannanna.

Þremenningarnir, sem eru Íslendingar sem þekkja vel til á þessum slóðum, höfðu lagt af stað á tveim­ur bíl­um og voru á leið að Frost­astaðahálsi til að aðstoða fé­laga sinn sem fest hafði bíl sinn þar. Báðir bíl­arn­ir fóru hins vegar niður um vök sem mynd­ast hafði neðan við Hnausa­poll.

Spurð á hvaða leið maðurinn sem festi sig hafi verið segir Margrét Ýrr: „Hann var með hóp á leið inn í Landmannalaugar, en festi svo bíl sinn og kallar eftir félögum sínum. Þetta átti að vera frekar einfalt mál, en var það svo ekki.“ Hún kveðst ekki vita hve lengi sá hafði verið í bílnum áður en aðstoð barst.

Mönn­un­um tókst að kom­ast út úr bíl­un­um af sjálfs­dáðum og gengu síðan blaut­ir og hrakt­ir 7,5 km leið í átt að bílnum sem var fastur við Frostastaðaháls. Björgunarsveitum barst útkallið kl. 2:30 í nótt, en mennirnir voru ekki komnir í bílinn fyrr en kl. 5:30 í morgun þar sem þeir fengu heitan drykk og komust í hlýjan fatnað.

Ferðin að Frostastaðahálsi sóttist björgunarsveitum hægt.
Ferðin að Frostastaðahálsi sóttist björgunarsveitum hægt. Ljósmynd/Aðsend

„Það er illfært og það er líka mjög lélegt skyggni,“ segir Margrét Ýrr um aðstæður á vettvangi. Mönnunum hafi því sóttst ferðin hægt, þrátt fyrir að þekkja vel til, líkt og björgunarsveitarmönnum sem komnir voru á staðinn kl. 6:30 í morgun.

„Þegar við vorum búin að heyra í þeim eftir að þeir komu í bílinn og heyrðum að þeir voru í nokkuð góðu standi miðað við aðstæður þá afboðuðum við snjóbíla sem búið var að boða í þetta verkefni,“ segir hún og kveður miklu hafa skipt að mennirnir náðu að vera í sambandi við björgunarsveitarfólk á göngunni.

20 björgunarsveitarmenn á fimm bílum og tveimur vélsleðum tóku þátt í björgunarsveitaraðgerðunum.

Mönn­un­um tókst að kom­ast út úr bíl­un­um af sjálfs­dáðum og …
Mönn­un­um tókst að kom­ast út úr bíl­un­um af sjálfs­dáðum og gengu síðan blaut­ir og hrakt­ir 7,5 km leið í átt að bílnum sem var fastur við Frostastaðaháls. Ljósmynd/Flugbjörgunarsveitin Hellu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert