Lögreglan svarar gagnrýni vegna mótmæla

Lögreglumaður á Austurvelli í gær.
Lögreglumaður á Austurvelli í gær. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglumenn verði ávallt að bregðast við færist mótmæli yfir í skemmdarverk eða ef mótmælendur óhlýðnast beinum fyrirmælum lögreglumanna eða ráðast gegn þeim við skyldustörf. Lögreglan segir að þá sé bæði öryggi borgaranna og lögreglunnar stefnt í hættu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögreglan hefur birt á Facebook-síðu sinni, en lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir að beita mótmælendur miklu harðræði á Austurvelli í gær, en þar kom saman hópur fólks til að vekja athygli á réttarstöðu hælisleitenda hér á landi. 

Eins og fram hefur komið, hafa þingmenn gert viðbrögð lögreglu við mótmælum hælisleitenda á Austurvelli í gær að umtalsefni á samfélagsmiðlum, en lögregla beitti m.a. piparúða gegn mót­mæl­end­um. Greindi Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, frá því á Facebook að hann ætli að taka málið upp á nefndarfundi.

Mótmælin hófust kl. 15 og stóðu fram á kvöld, og það voru hælisleitendur og stuðningsfólk þeirra sem skipulögðu mótmælin. Lögreglan segist hafa haft venjubundinn viðbúnað við Alþingishúsið af þessum sökum. Þá segir lögreglan, að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir mótmælunum á Austurvelli, eins og venjan sé, né um leyfi til að fá að tjalda þar.

Frá mótmælunum á Austurvelli í gær.
Frá mótmælunum á Austurvelli í gær. mbl.is/Eggert

Kom til stimpinga þegar lögreglan fjarlægði tjöld

„Mótmælendur settu engu að síður upp tjöld og mynduðu skjaldborg í kringum þau. Lögreglan gerði mótmælendunum grein fyrir því að þeir gætu ekki tjaldað á Austurvelli án leyfis. Lögreglumenn tóku því tjöldin og kom þá til stimpinga. Eftir það róaðist yfir mótmælunum.

Á sjöunda tímanum lagði lögreglan hald á pappaspjöld og vörubretti úr fórum mótmælenda því hún taldi að verið væri að hlaða í bálköst. Mótmælendurnir reyndu að verja spjöldin og brettin með því að leggjast ofan á þau. Þurfti lögreglan þá að beita afli. Einn mótmælandinn sparkaði í lögregluþjón og var hann í kjölfarið handtekinn. Annar mótmælandi réðist þá að lögregluþjóninum sem sá um handtökuna og var sá einnig handtekinn. Lögreglan flutti einstaklingana tvo inn í lögreglubíla í Templarasundi, við Dómkirkjuna,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar.

Beiting piparúða metið vægasta stig valdbeitingar

Hún segir ennfremur, að hluti mótmælenda gerði við það aðsúg að lögreglunni og þá hafi piparúða verið beitt.

„Beiting piparúðans var metið vægasta stig valdbeitingar við þessar aðstæður þar sem litið var svo á að verið væri að ráðast á lögregluna við skyldustörf. Lögreglan óskaði umsvifalaust eftir sjúkrabíl til að vera til taks til að hjálpa fólkinu sem fyrir varð að hreinsa burt efnið og skola augu sín. Ekki er vitað um nein alvarleg meiðsl hjá mótmælendum eða lögreglumönnum vegna þessa.

Þeim tveim einstaklingum sem voru handteknir, Íslendingi og hælisleitanda, var sleppt í gærkvöldi að lokinni skýrslutöku. Áætlað er að mótmælendur hafi verið 70-80 talsins og lögreglumenn um 20 þegar mest var. Lögreglan áætlar að um 10 manns hafi fengið piparúða yfir sig,“ segir lögreglan.

mbl.is/Eggert

Hún tekur fram í yfirlýsingunni, að lögreglan hlusti á alla gagnrýni og það sé eðlilegt að framganga hennar sé ávallt til skoðunar, hvort sem er af almenningi, fjölmiðlum og kjörnum fulltrúum. Það sé skiljanlegt að það veki eftirtekt þegar lögregla neyðist til að verja sig með varnarúða.

Lögreglan ekki andstæðingur mótmælenda

„Það er ekki með ánægju sem slíkum meðölum er beitt. Lögreglan forðast þvert á móti í lengstu lög að fara valdbeitingarleiðina. Þegar hins vegar mótmæli færast yfir í skemmdarverk eða ef mótmælendur óhlýðnast beinum fyrirmælum lögreglumanna eða ráðast gegn þeim við skyldustörf þá er bæði öryggi bæði borgaranna og okkar sem störfum sem lögreglumenn, stefnt í hættu. Við því verður lögreglan ávallt að bregðast.

Flest mótmæli undanfarinna ára hafa farið vel fram og í góðri samvinnu lögreglu, borgaranna og annarra yfirvalda. Lögreglan virðir að sjálfsögðu stjórnarskrárbundinn rétt almennings til mótmæla og tjáningarfrelsis. Langflestir mótmælenda virða sömuleiðis hlutverk og ábyrgð lögreglu og sýna því skilning að við þurfum ávallt að huga að öryggi borgaranna.

Lögreglan er alltaf til viðræðu við mótmælendur og við vonumst til að ekki þurfi að koma til sambærilegra aðgerða lögreglu á mótmælum sem fyrirhuguð eru í dag. Lögreglan er ekki andstæðingur mótmælenda. Hælisleitendur eru hópur í veikri stöðu, eins og lögreglan þekkir sjálf vel til, en staða þeirra verður ekki bætt með því að efna til áfloga við lögreglu. Lögreglan biður mótmælendur um að halda sig við friðsamlegar aðgerðir og leggur áherslu á að þeir fylgi fyrirmælum lögreglu á vettvangi,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert