Nokkur fjöldi fólks er nú samankominn á Austurvelli, sennilega hátt í 200 manns, en þar mótmæla hælisleitendur og stuðningsmenn þeirra, rétt eins og í gær, aðbúnaði umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Allt hefur farið fram með friðsamlegum hætti frá því að mótmælin hófust um kl. 17.
Raunar var boðað var til tveggja aðskildra mótmæla á Austurvelli í dag, en kl. 16:30 stóðu ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka, þar á meðal ríkisstjórnarflokksins Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, „Gulu vestin“ og hópur sem kallar sig „Jæja“ fyrir mótmælum þar sem afsagnar Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra var krafist, vegna niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu. Einhverjir veifuðu bönunum, málstað sínum til stuðnings.
Eftir kl. 17 hefur mótmælendum og þeim sem sýna mótmælum hælisleitenda samstöðu fjölgað á Austurvelli. Hælisleitendur hafa haldið ræður, þar sem þeir lýsa aðstæðum sínum hér á landi og uppskorið mikið lófaklapp frá þeim sem viðstaddir eru mótmælin.
Erlendi karlmaðurinn sem lögregla handtók í mótmælunum í gær hélt til dæmis ræðu og sagði „sjokkerandi“ hvernig lögregla hefði komið fram við mótmælendur í gær, en þá var piparúða beitt. Lögregla er viðstödd mótmælin og stendur fyrir framan Alþingishúsið, en athygli vakti að fyrst um sinn eftir að mótmælendur komu á staðinn var lögregluliðið einungis skipað konum. Síðar bættust lögreglukarlar í hópinn og eru nú tíu lögregluþjónar við Alþingishúsið.
Allt hefur farið friðsamlega fram, sem áður segir.