Niðurstaðan byggð á veikum grunni

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir dóm Mannréttindadómstólsins byggja á sama …
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir dóm Mannréttindadómstólsins byggja á sama veika grunni og dómur Hæstaréttar. mbl.is/Eggert

„Ég er ekki sáttur við þennan dóm og mér sýnist hann byggja í megin atriðum á sömu niðurstöðum og Hæstiréttur gerði í desember 2017. Mér fannst niðurstaða Hæstaréttar byggð á veikum grunni og það sama á við um þetta,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu svo nefnda sem birtur var í morgun.

Komst dómstóllinn að þeirri niður­stöðu að ís­lenska ríkið sé brot­legt í mál­inu og að dóm­ara­skip­un Sig­ríðar Á. And­er­sen dóms­málaráðherra í rétt­inn hafi brotið gegn mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um

Birgir segir það sína skoðun að niðurstaða þeirra dómara Mannréttindadómstólsins sem skiluðu inn séráliti byggi á mun skýrar og skarpari lögfræðilegum forsendum heldur en meirihlutaálitið.

„Verður rætt eins og önnur mál sem upp kom“

„Málin eru þó með þeim hætti að þetta ýtir enn undir það sem við höfum s.s. vitað, að við þyrftum að taka til endurskoðunar þær reglur sem gilda um skipun dómara hér og skerpa á valdsviði og verkaskiptingar milli dómnefndar, dómsmálaráðherra og Alþingis í skipunarferlinu. Þannig frá mínum bæjardyrum séð er það verkefnið sem er framundan að þessari niðurstöðu fenginni.“

Birgir segir þingflokk Sjálfstæðisflokksins ekki hafi tekið niðurstöðu Mannréttindadómstólsins til umræðu, enda hafi verið nefndardagur á Alþingi frá því klukkan níu í morgun.  Dómurinn verði hins vegar ræddur eftir því sem tilefni er til. „Þetta verður auðvitað rætt eins og önnur mál sem upp koma,“ segir hann.

Spurður hvort hann telji dóminn veikja stöðu dómsmálaráðherra segir Birgir áður hafa verið tekist á um öll efnisatriði málsins. „Það var gert við ýmis tækifæri á árinu 2017 og 2018, þannig að í þeim skilningi er ekkert nýtt í málinu. Stjórnarandstaðan á Alþingi reyndi að fá samþykkt vantraust á ráðherrann fyrir ári á þessum forsendum og það var fellt og ég sé ekki að forsendur hafi neitt breyst síðan þá.“

Niðurstaðan ekki bindandi

Dóm­ar­ar Lands­rétt­ar funda í dag um dóm Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu og hvað felst í hon­um. Málum þeirra dómara Landsréttar sem dómur Mannréttindadómstólsins tekur til, og sem vera áttu á dagskrá Landsréttar í þess­ari viku hefur enn fremur verið frestað.

„Ég geri ráð fyrir að dómurinn starfi áfram með eðlilegum hætti þó að menn geri kannski hlé á einstökum réttarhöldum á meðan menn eru að fara yfir niðurstöður dómsins,“ segir Birgir. Áður hafi verið tekist á um hæfi dómaranna fyrir íslenskum dómstólum og þá hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir annmarka á ferlinu þá séu dómararnir rétt skipaðir.

„Niðurstaða Hæstaréttar er endanleg niðurstaða hvað það varðar, því þó að Mannréttindadómstóllinn tjái sig um túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmálans, þá er hann ekki æðsta dómsvald á Íslandi,“ segir Birgir og bætir við að niðurstaða hans sé heldur ekki bindandi í einstökum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert