„Einn þeirra sem gengu rúma 7,5 kílómetra var orðinn aðeins kaldur. Þetta voru hrikalegar aðstæður til að ganga í, kolniðamyrkur og óveður,“ segir Kári Rafn Þorbergsson, björgunarsveitarmaður í flugbjörgunarsveitinni á Hellu, sem tók þátt í björgunaraðgerðum á Fjallabaksleið í nótt.
Þar höfðu þrír menn á tveimur bílum farið niður um vök við Hnausapoll þar sem þeir voru á leiðinni að aðstoða félaga sinn sem sat fastur við Frostastaðaháls.
„Við sáum yfirleitt ekki fram fyrir nefið á björgunarsveitarbílunum,“ útskýrir Kári fyrir blaðamanni mbl.is og segir ljóst að mennirnir þrír hafi unnið þrekraun með því að komast að bílnum sem félagi þeirra, ásamt sex öðrum, sat fastur rúmum 7,5 kílómetra í burtu.
„Bílarnir þeirra voru sokknir alveg upp að framrúðu en í þriðja bílnum, sem sat fastur við Frostastaðaháls, var fólk sem hafði það gott. Bíllinn var heitur og fínn og þremenningarnir náðu strax í sig smá yl.“
Að sögn Kára hafði bíllinn sem festi sig með sjö manns innanborðs upphaflega verið í samfloti við annan bíl sem hafði þurft að snúa við vegna bilunar. „Hann fór af stað mjög snemma í gærmorgun og ætlaði að vera kominn inn í Landmannalaugar áður en veðrið skylli á seinni partinn. Það vantaði einn kílómetra upp á að hann kæmist á áfangastað þegar hann festi sig seinni partinn í gær.“
Kári vill taka það fram að þeir sem þarna voru á ferð vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera og voru með allt á hreinu.
„Þeir brugðust hárrétt við öllu og voru með allan mögulegan búnað sem þurft gæti á að halda. Hefðu þeir ekki sökkt bílunum í þessum polli væru þeir allir sofandi heima hjá sér núna,“ segir Kári að lokum.