Icelandair tók snarpa dýfu í Kauphöll Íslands í gær. Er lækkunin m.a. rakin til þeirrar staðreyndar að félagið hefur í rekstri 3 Boeing 737 MAX 8-vélar en tvær vélar af þeirri tegund hafa farist með fimm mánaða millibili. Með vélunum fórust 346 manns.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist forstjóri Icelandair bera fullt traust til vélanna en á þessu ári munu fleiri slíkar bætast í flota félagsins.
Lækkuðu bréf félagsins um tæp 10% í viðskiptum gærdagsins. Einnig gustaði um framleiðanda vélanna, Boeing, sem sveiflaðist mjög í Kauphöllinni í New York í gær. Þegar upp var staðið höfðu um 1.500 milljarðar króna þurrkast út af markaðsvirði félagsins. Í gærkvöld tilkynntu flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum að þau myndu skipa Boeing að gera breytingar á 737 MAX 8-vélunum. Þess er krafist að uppfærslu á vélunum verði lokið ekki síðar en í næsta mánuði.
Eftir lokun markaða í gær var svo tilkynnt um að Icelandair Group hefði náð samkomulagi við innlenda lánastofnun um 80 milljóna dollara lán, jafnvirði tæplega 10 milljarða króna. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að lánastofnunin sé Landsbankinn. Er ætlunin að nýta andvirði lánsins til að greiða inn á stóran skuldabréfaflokk sem félagið gaf út á árunum 2016 og 2017. Er lánið veitt með veði í 10 Boeing 757-vélum í eigu félagsins.