„Svívirðilegt brot á gildandi lögum“

Bæði dómsmálaráðherra og Alþingi er gagnrýnt í dómi MDE vegna …
Bæði dómsmálaráðherra og Alþingi er gagnrýnt í dómi MDE vegna ágalla við meðferð skipan dómara til Landsréttar. mbl.is/Árni Sæberg

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem féll í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu tekur ekki sérstaka afstöðu til þess hvort Guðmundur Andri hafi hlotið réttláta málsmeðferð fyrir íslenskum dómstólum.

Þá segir í dóminum að ekki sé þörf á að taka málsmeðferðina til sérstakar skoðunar þar sem ljóst sé að lög hafi verið brotin við afgreiðslu dómaraskipan í Landsrétt.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Andra, vísaði máli skjólstæðings síns til MDE í fyrra í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm Landsréttar yfir Guðmundi Andra.

Sagðist Vilhjálmur leita til MDE á grundvelli athugasemda við skipan dómara til Landsréttar og að vankantar á skipun dómaranna væru brot gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Málið snéri að skipun Arnfríðar Einarsdóttur í embætti dómara, en hún dæmdi í máli Guðmundar Andra.

Íslenska ríkið sagði fyrir MDE að Hæstiréttur Íslands hafi, þrátt fyrir að einhverjir vankantar hefðu verið við skipun dómara, ekki dregið í efa lögmæti skipan dómarans í máli Guðmundar Andra og þar af leiðandi hefði hann hlotið réttláta málsmeðferð hjá dómstóli skipaðan samkvæmt lögum.

Rökum ríkisins hafnað

Meirihluti dómara MDE telur hins vegar rök íslenska ríkisins ekki sannfærandi og segir liggja fyrir að vankantar hafi verið við skipun dómara við Landsrétt og á þeim grundvelli sé ekki hægt að telja skipun dómaranna vera í samræmi við lög.

Meðal annars er rætt um áberandi brest í meðferð Alþingis þar sem ekki var greitt atkvæði um hvern dómara fyrir sig þegar skipun dómara við Landsrétt hlaut þinglega meðferð.

Þá segir MDE liggja fyrir að skipun Arnfríðar Einarsdóttur í embætti dómara við Landsrétt hafi verið „svívirðilegt brot á gildandi lögum [á Íslandi]“ um skipun dómara.

Hunsaði löggjöfina

Er framkvæmdavaldið sagt hafa beitt valdi sínu óhóflega til þess að komast kringum þann vilja sem löggjafinn hafði kynnt með lögum um skipun dómara. Þar að auki er Alþingi sagt ekki hafa sinnt skyldu sinni gagnvart þinglegri meðferð og hafi þess vegna ekki verið tryggt jafnvægi milli aðkomu löggjafar- og framkvæmdavalds.

MDE segir jafnframt dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, hafa hunsað reglur er snéru að tilnefningu dómara þegar tillögu hæfisnefndar var breytt.

Meirihluti dómaranna við MDE segjast knúnir til þess að komast að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum mannréttindasáttmálans þar sem önnur niðurstaða myndi þýða að ákvæði sáttmálans, um að dómarar skulu skipaðir á grundvelli laga, væri ómerkur bókstafur.

Skoða ekki málsmeðferð Guðmundar Andra

Þegar MDE var beðinn um að taka mál Guðmundar Andra gegn ríkinu til skoðunar var í því samhengi vísað til þess að hann hafi ekki fengið réttláta og hlutlausa málsmeðferð fyrir Landsrétta í samræmi við ákvæði sjöttu greinar mannréttindasáttmálans.

„Á grundvelli fyrrnefndrar niðurstöðu um fyrsta lið umkvörtunaraðila sem nær til sömu greinar, telur dómstóllinn ekki ástæðu til þess að taka sérstaka afstöðu til þessarar kvörtunar,“ segir í niðurstöðu MDE.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert