Réttindaráð Hagaskóla mótmælir harðlega fyrirætlunum stjórnvalda um að vísa Zainab Safari og fjölskyldu hennar úr landi. Shahnaz Safari og börnin hennar tvö verða að óbreyttu send aftur til Grikklands en annað barnið er nemandi í 9. bekk Hagaskóla.
Fjölskyldan samanstendur af móðurinni, Shahnaz Safari, og börnum hennar tveimur. Dóttirin Zainab er 14 ára nemandi í Hagaskóla og sonurinn Amir er 12 ára nemandi í Grandaskóla.
Greint var frá máli Safari-fjölskyldunnar í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Fjölskyldunnar bíður brottvikning aftur til Grikklands þar sem hennar bíður líf á götunni. Upphaflega yfirgáfu Shahnaz og eiginmaður hennar Afganistan og flúðu til Íran, þaðan sem þau komu til Grikklands fyrir þremur árum.
Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi tvisvar hafnað því að taka mál fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar. Kærunefnd útlendingamála staðfesti höfnunina fyrir mánuði.
„Zainab er 14 ára nemandi í Hagaskóla sem hefur þurft að ganga í gegnum hluti sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Hún finnur til öryggis á Íslandi, er í góðum bekk í Hagaskóla og líður vel með nemendum og starfsmönnum sem styðja við bak hennar,“ kemur fram í ályktun réttindaráðs Hagaskóla en í ráðinu eru nemendur, kennarar, deildarstjóri og foreldri.
Réttindaráð fer fram á að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína með hliðsjón af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögleiddur á Íslandi en í 3. grein sáttmálans segir að „allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.“