„Með okkar formennskuáætlun þá lagði ég áherslu að leita lausna,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sem þessa dagana er staddur á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí í Kenýa. Guðmundur Ingi tók í dag þátt í pallborðsumræðum um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðin, en Ísland tekur á þessu ári við formennsku í norðurskautsráðinu af Finnum.
Guðmundur Ingi segist í tölu sinni hafa lagt áherslu á aðgerðir gegn plastmengun í hafi og áhrif loftslagsbreytinga á samfélög á norðurslóðum.
„Það er ekki búið að gefa út formennskuáætlunina, en við erum með fjögur meginstef,“ segir hann. „Hafsvæði á norðurslóðum, loftslagsmál og grænar lausnir, fólk og samfélög á norðurheimskautssvæðum og sterkara norðurskautsráð.“ Aðaláherslan varðandi hafsvæðin snúi þannig til að mynda að plastmengun í hafi og aðgerðum gegn henni. Eins sé verið að horfa á áhrif loftslagsbreytinga á smærri samfélög og aðlögunaraðgerðir sem þau þurfi að undirgangast.
Guðmundur Ingi segir þau sem sóttu pallborðsumræðurnar hafa verið vel með á nótunum og meðal gesta hafi til að mynda verið fólk, sem þegar er farið að finna áhrif loftslagsbreytinga á eigin skinni. Sjálfur sótti hann fund norðurskautsráðsins í Finnlandi síðasta haust og kveðst þá hafa heyrt sjokkerandi sögur af íbúum í afskekktum héruðum Finnlands um það hvernig umhverfi þeirra sé að breytast.
„Þannig að það eru stórar ákvarðanir fram undan í aðlögun þessara samfélaga að loftslagsbreytingum, en það er líka mikilvægt að þær aðgerðir sem við grípum til nýtist líka við að draga úr losun,“ segir hann og nefnir sem dæmi endurheimt votlendis, vistkerfis og skóga.
Á pallborðsumræðunum var kynnt myndræn samantekt sem unnin var í samvinnu UNEP, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Environmental Program), og GRID Arendal um umhverfismál á norðurskautsslóðum. „Þar var horft til þriggja þátta — loftslagsmála, mengunar og náttúrunnar sem eru þessi þrjú atriði sem Finnarnir hafa lagt áherslu á í formennskutíð sinni,“ segir Guðmundur Ingi og kveður samantektina hafa verið setta fram á aðgengilegan hátt.
„Þetta færir flókið viðfangsefni nær manni,“ útskýrir hann og nefnir sem dæmi kort sem sýni hve mikið ís í Norðuríshafinu hefur verið að dragast saman og hversu mikið og hratt sé talið að hann haldi áfram að minnka. Sams konar kort var sýnt yfir hitatölur. „Það er staðreynd að það hitnar hraðar við pólana en miðbaug. Þess vegna erum við líka þegar farin að sjá áhrif þessara breytinga í þessum mæli á norðurskautssvæðunum.“
Þetta eru líka svæði sem þurfa á næstu árum að takast á við heilmikla aðlögun vegna þeirra breytinga sem loftslagsáhrifin hafa í för með sér. Því fer þó fjarri að áhrif þess sem þar gerist séu einangruð við þau svæði. „Það er stundum sagt að það sem gerist á norðurskautsslóðum heldur sig ekki bara þar,“ segir Guðmundur Ingi og nefnir sem dæmi að þegar hlýnar á þessum svæðum þá aukist flæði ferskvatns út í hafið og það hafi áhrif víðar. „Sífrerinn þiðnar svo líka með þeim afleiðingum að gróðurhúsaloftegundir geta losnað og það hefur svo áhrif á allan heiminn.“
Norðurskautssvæðin taka líka við þeim efnum sem verið er að setja út í andrúmsloft, jörð og vatn og safnast svo fyrir í vistkerfinu. „Það er margt sem hægt er að læra af þessum svæðum, en þau eru líka viðvörunarbjalla,“ segir hann og bætir við: „Því á sama tíma og við erum kannski ekki að fá neitt voðalega góðar fréttir af þessu, þá þurfum við virkilega að einblína á lausnirnar.“
Fréttin hefur verið uppfærð.