„Við lítum á þetta mál mjög alvarlegum augum og teljum fulla ástæðu til þess að krefja Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skýringa á þessari úttekt sinni,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um Fossvogsskóla í Reykjavík, en skólabyggingin er mjög illa farin eftir langvarandi lekavandamál og skort á nauðsynlegu viðhaldi.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerði úttekt á skólanum 21. nóvember sl. og gaf honum heildareinkunn 4 af 5 mögulegum. Fékk skólinn því fáar athugasemdir í eftirlitsferðinni. Á sama tíma segja starfsmenn rakavandamál hafa verið sýnilegt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúi Miðflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði óskuðu eftir „tafarlausum aukafundi“ í ráðinu, eigi síðar en 15. mars nk. „Óskað er eftir fundinum vegna þess að komið hafa í ljós heilsuspillandi rakaskemmdir í húsnæði grunnskóla Reykjavíkur. Þess er farið á leit að rætt verði um sífjölgandi tilfelli af þessu tagi og aðkomu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að úttektum á skólahúsnæði sem og um aðra verkferla sem til álita koma,“ segir í fundaróskinni. Í gærkvöld var boðað til fundar í ráðinu klukkan 12.30 næsta föstudag.