Afar ósátt við aldursgreiningar hjá HÍ

Við aldursgreiningar eru teknar röntgenmyndir af öllum tönnum með breiðmynd …
Við aldursgreiningar eru teknar röntgenmyndir af öllum tönnum með breiðmynd og sérmyndir af jöxlum og framtönnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stúdentaráð lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun háskólaráðs vegna afgreiðslu þjónustusamnings við Útlendingastofnun varðandi aldursgreiningar á ungum hælisleitendum á Íslandi. 

Yfirlýsingin í heild

Allir  háskólaráðsfulltrúar greiddu atkvæði með því að gerður yrði samningur fyrir utan einn, Benedikt Traustason, sem er annar af fulltrúum stúdenta, sem greiddi atkvæði á móti. 

„Við vekjum enn fremur athygli á því að Stúdentaráði hafi borist ábendingar um að tanngreiningar hafa farið fram innan veggja skólans við gerð verksamningsins, nú síðast í nóvember, þrátt fyrir að Háskólinn hafi ítrekað gefið út að þær séu ekki framkvæmdar á meðan verksamningur sé í skoðun. Fleiri þættir við þetta mál hafa vakið óhug og vonbrigði Stúdentaráðs,“ segir í tilkynningu frá SHÍ.

„Forsaga málsins er sú að þrír einstaklingar, Elínborg Harpa, Anna Kristín og Eyrún Ólöf, nálguðust forseta Stúdentaráðs og óskuðu eftir að flytja erindi á Stúdentaráðsfundi um málefni hælisleitenda. Á fundi Stúdentaráðs 19. júní 2018 fjallaði Anna Kristín Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur um aðkomu Háskóla Íslands að aldursgreiningum á hælisleitendum. Hún greindi frá því þær hefðu fundað með rektor og fulltrúum úr vísindasiðanefnd Háskólans en þótti þeim fátt hafa verið um svör.

Í kjölfar Stúdentaráðsfundar fóru forseti Stúdentaráðs, forseti sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs og Anna Kristín á fund með rektor, forseta heilbrigðisvísindasviðs og ráðgjafa rektors. Þar kom í ljós að verið væri að undirbúa mögulegan þjónustusamning við Útlendingastofnun og koma þessu málefni þannig í formlegri farveg.

Eftir þann fund hefur málið farið til umsagnar til jafnréttisnefndar og vísindasiðanefndar háskólaráðs, stjórn heilbrigðisvísindasviðs hefur tekið málið fyrir og að lokum lá málið fyrir hjá háskólaráði. Þá hafa doktorsnemar, nýdoktorar og starfsfólk Háskóla Íslands tekið sig saman og safnað undirskriftum gegn þessum verksamningi á menntavísindasviði, félagsvísindasviði og hugvísindasviði. Háskólaráð ákvað að stofna starfshóp sem myndi nálgast málið heildrænt fyrir hönd ráðsins og skila af sér afstöðu til atkvæðagreiðslu. Sú afstaða liggur fyrir og hefur háskólaráð samþykkt að undirrita verksamning við Útlendingastofnun.

Kaupandi þjónustunnar, Útlendingastofnun, nýtir meðal annars niðurstöður rannsóknanna sem eru framkvæmdar innan veggja Háskólans til að úrskurða um málefni hælisleitenda. Með því að gera verksamning við Útlendingastofnun er Háskóli Íslands að taka skýra afstöðu með þessum framkvæmd þessara greininga og er ekki lengur hlutlaus. Háskólinn er sjálfstæð menntastofnun og er eitt helsta hlutverk hans gagnvart samfélaginu að vera leiðandi í þekkingaröflun og miðlun þeirrar þekkingar. Með gerð slíks verksamnings er vegið að sjálfstæði stofnunarinnar og þeirra rannsókna sem fara fram innan hennar. Nánar tiltekið er fræðafólk innan HÍ að stunda rannsóknir og fræðastörf sem tengjast hælisleitendum á sama tíma og stofnunin er skuldbundin til þess að taka þátt í rannsóknum á tönnum þessara hópa sem hafa áhrif á málsmeðferð þeirra hérlendis. Það er í besta falli þversagnakennt.

Háskólinn hefur fært rök fyrir því að með verksamningnum sé skólinn ekki að taka afstöðu með eða gegn rannsóknum á tönnum til aldursmats en ákveður að framkvæma rannsóknirnar engu að síður að beiðni Útlendingastofnunar. Það er óábyrgt að lúta beiðni um framkvæmd rannsókna án þess að svara spurningum á skýran hátt um réttmæti rannsóknanna. Að HÍ telji sig ekki þurfa að taka afstöðu til rannsóknanna sjálfa sem hann mun framkvæma innan veggja skólans vegur að trúverðugleika niðurstöðu háskólans og réttmæti samningsins í heild sinni,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert