„Uppfærsla Hilmars Jónssonar og sýning Þjóðleikhússins er litrík, íburðarmikil jafnvel, og aldrei leiðinleg. Það væri enda dauðasynd: að láta áhorfendum leiðast á einu skemmtilegasta leikriti sem skrifað hefur verið, og best heppnaða verki Shakespeares sem endar alfarið vel. Spurningin er hvort við verðum ekki að gera harðari kröfur á þjóðleikhús sem tjaldar öllu til, en að vera ekki leiðinlegt með annan eins efnivið, að viðbættri hæfileikum og fagmennsku áhafnarinnar,“ segir í leikdómi Þorgeirs Tryggvasonar um Jónsmessunæturdraum eftir William Shakespeare í uppfærslu Þjóðleikhússins sem birtur er í Morgunblaðinu í dag.
„Þær aukakröfur uppfyllir sýningin ekki nema stund og stund, og alls ekki sem heild. Kannski er stóri vandinn sá að andstæður og samspil heimanna tveggja: mannheima og náttúru eða álfheima, borgar og skógar, eru ekki útfærðar á fullnægjandi hátt.“
Að mati gagnrýnanda er Búkki Guðjóns Davíðs Karlssonar áberandi áhrifaríkastur af álfastóðinu í verkinu. „Sterk nærvera og myndugleiki einkenndu þessa túlkun á skósveini Óberons, frekar en trúðsk hrekkjakætin sem oft er grunntónninn og verður auðveldlega þreytandi,“ segir í leikdómnum, en rýnir er ekki jafn hrifinn af frammistöðu Atla Rafns Sigurðarsonar sem fer bæði með hlutverk Þeseifs hertoga og Óberons álfakonungs. „Því miður hjálpaði afstöðulaus og sérkennilega dauf frammistaða Atla Rafns Sigurðarsonar ekkert upp á að trúa á eða skilja hvað álfakóngnum gekk til. Það sama má segja um Þeseif hans, sérkennilegur skortur á sviðslegri nærveru einkenndi þá báða.“
Niðurstaða gagnrýnanda er því að uppfærslan líði „talsvert fyrir skort á skýrri listrænni heildarhugsun. Fyrir vikið ná stakar snjallar hugmyndir og tilþrif ekki fullum áhrifum.“ Leikritið standi þó enn fyrir sínu, „hvað sem brölti hins hrikalega trega mannkyns líður,“ segir í niðurlagi leikdómsins sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.