Forseti Landsréttar segir að frá og með mánudeginum 18. mars muni Landsréttur starfa samkvæmt breyttri dagskrá sem birt verður á heimasíðu réttarins. Ellefu dómarar munu sinna dómstörfum en þau Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson munu að svo stöddu ekki taka þátt í dómstörfum.
Þá er Landsréttardómarinn Ragnheiður Bragadóttir í námsleyfi frá 1. janúar til 30. júní 2019.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Hervör Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, hefur birt á heimasíðu dómstólsins.
Hún er svohljóðandi:
„Í tilefni af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi frá 12. mars síðastliðnum var á fundi dómara Landsréttar sama dag ákveðið að fresta öllum þinghöldum sem boðað hafði verið til í þessari viku.
Frá og með mánudeginum 18. mars næstkomandi mun Landsréttur starfa samkvæmt breyttri dagskrá sem birt verður á heimasíðu réttarins.
Eftirtaldir dómarar Landsréttar munu sinna dómstörfum:
Aðalsteinn E. Jónasson
Davíð Þór Björgvinsson
Hervör Þorvaldsdóttir
Ingveldur Einarsdóttir
Jóhannes Sigurðsson
Kristbjörg Stephensen
Oddný Mjöll Arnardóttir
Ragnheiður Harðardóttir
Sigurður Tómas Magnússon
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Þorgeir Ingi Njálsson
Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson munu að svo stöddu ekki taka þátt í dómstörfum.
Landsréttardómarinn Ragnheiður Bragadóttir er í námsleyfi frá 1. janúar til 30. júní 2019.“