Snýst um hvort „fjölmiðlar verði ósnertanlegir“

Stundin fjallaði fyrst um málið á haustmánuðum 2017, en Glitnir …
Stundin fjallaði fyrst um málið á haustmánuðum 2017, en Glitnir fékk síðar lögbann á frekari umfjöllun. Málið hefur verið fyrir dómstólum allar götur síðan. mbl.is/Eggert

Í lögbannsmáli Glitnis Holdco gegn Stundinni og Reykjavík Media er tekist á um tvö mikilvæg álitaefni. Annars vegar um heimild stefnanda til að leiða blaðamenn sem vitni fyrir dóm og að þeir svari ákveðnum spurningum í heild eða hluta án þess að geta vísað alltaf til verndar heimildarmanna án þess að dómstólar leggi mat á spurningarnar. Hins vegar um rétt fjölmiðla til umfjöllunar upp úr efni sem hefur verið stolið og hvort ekkert geti stöðvað slíka birtingu, sérstaklega þegar um er að ræða stóra gagnapakka. Þetta kom fram í máli Ólafs Eiríkssonar, lögmanns Glitnis, við þinghald í Hæstarétti í dag.

Ólafur sagði að þekkt væri að fjölmiðlar hefðu verið notaðir til að koma höggi á aðila og ef dómar héraðsdóms og Landsréttar í málinu fengju að standa gæti Stundin í þessu tilfelli notað gagnapakkann til að fjalla um fyrrverandi viðskiptavini Glitnis og jafnvel aðila sem tengdust viðskiptavinum Glitnis um ókominn tíma, ef einhver þeirra  hætti sér út í opinbera umræðu. Sagði hann þetta vera grundvallaratriði og hvort ritstjórnir fjölmiðla ættu að geta birt upplýsingar úr svona gagnapökkum eftir eigin ákvörðun um ókomna framtíð.

Segir fyrri dóma taka vitnaskylduna úr sambandi

Í málflutningsræðu sinni vísaði Ólafur til þess að blaðamenn og forsvarsmenn Stundarinnar og Reykjavík Media hefðu fyrir héraðsdómi neitað að svara flestum spurninga og öll vísað í fjölmiðlalög, en í 25. grein þeirra laga er komið inn á vernd heimildarmanna og að starfsmönnum fjölmiðla sé óheimilt að upplýsa um heimildarmann sinn hafi verið óskað nafnleyndar.

Ólafur benti á að Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóri Stundarinnar, hefði í héraði ekki viljað svara spurningu um hvort heimildarmaðurinn hafi almennt óskað nafnleyndar. Sagði hann Glitni ekki vera að reyna að fá upplýsingar um hver heimildarmaðurinn væri og að óásættanlegt væri að blaðamenn kæmust upp með að koma sér undan spurningum með vísan í þessi lög þegar þau ættu í raun ekki við.

Gagnrýndi Ólafur jafnframt að dómstólar hefðu ekki framkvæmt sjálfstætt mat á því hvort spurningarnar væru réttmætar eða hvort blaðamönnunum væri heimilt að vísa í fjölmiðlalögin. „Niðurstaðan þýðir að blaðamenn hafa úrslitavald hvort þeir svari spurningum eða ekki,“ sagði Ólafur og vísaði til þess ef Hæstiréttur kæmist að sömu niðurstöðu og fyrri dómstig. Sagði hann það í raun þýða að búið væri að taka vitnaskylduna úr sambandi.

Ómögulegt að tiltaka öll skjölin

Varðandi fréttaflutning til frambúðar upp úr gögnunum sagði Ólafur að þegar væri búið að fjalla um Bjarna Benediktsson, en einnig um ýmsa aðra sem ekki væru opinberar persónur. Nefndi hann meðal annars nöfn nokkurra úr fjölskyldu Bjarna, en líka fjárfesta sem voru atkvæðamiklir fyrir og eftir hrun. Sagði Ólafur að Glitnir hafi bent á að Stundin gæti með gagnabankanum fjallað um nýja og nýja aðila eftir því sem það passaði hverju sinni. Dómurinn þyrfti að íhuga vel hvort gengi þarna framar, friðhelgi einkalífs fólks eða tjáningarfrelsi fjölmiðilsins.

Fór hann yfir þá stöðu sem uppi væri að erfitt væri fyrir Glitni að tiltaka öll þau gögn sem ekki mætt fjalla um þar sem um heilan gagnabanka væri að ræða. Í rauninni væri því staðan sú að ef fjölmiðlar fengju nógu stóra gagnapakka þá væri ekkert hægt að gera til að stoppa umfjöllun úr þeim þegar brotið væri á friðhelgisákvæðinu, því ómögulegt væri að tiltaka nákvæmlega ákveðin skjöl.

Þyrftu að bera umfjöllun undir Glitni fyrir birtingu

Sagði Ólafur að ef fallist yrði á kröfur Glitnis væri lögð skylda á fjölmiðla, sem hefðu gögn sem þessi undir höndum og ætluðu að fjalla um þau, að bera þau undir viðkomandi, í þessu tilfelli Glitni. Ef ekki yrði orðið við kröfum Glitnis væri hins vegar komin upp staða þar sem „fjölmiðlar verði ósnertanlegir“.

Með því ættu allir sem einhvern tímann áttu viðskipti við Glitni eða jafnvel þeir sem áttu í viðskiptum við þá sem áttu í viðskiptum við Glitni á hættu að vera dregnir fram á sjónarsviðið af þeim sem hefðu umrædd gögn. Ólafur sagði að það þjóðfélagsástand væri ekki eitthvað sem Glitnir teldi ásættanlegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka