Lögbannsmálið í Hæstarétti í dag

Sýslumaðurinn féllst á lögbannið í október árið 2017.
Sýslumaðurinn féllst á lögbannið í október árið 2017. mbl.is/Eggert

Lögbannsmál Glitnis Holdco gegn Stundinni verður tekið fyrir í Hæstarétti nú í dag, en það snýst um umfjöllun miðilsins um fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggði á gögnum innan úr fallna bankanum sem fjölmiðillinn hafði undir höndum. Þinghaldið hefst klukkan 9 og stendur í alla vega tvær klukkustundir.

Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti lögbannsbeiðnina 16. október árið 2017, en héraðsdómur hafnaði síðar kröfu Glitnis. Þrotabúið ákvað að kæra niðurstöðuna til Landsréttar sem tók málið fyrir á seinni hluta síðasta árs. Niðurstaðan þar var sú sama og í héraðsdómi og hafnaði Landsréttur að staðfesta lögbannið.

Rök­semd­ir Glitn­is HoldCo fyr­ir því að lög­bannið yrði staðfest voru þær að fjöl­miðlarn­ir hafi lýst því yfir að ekki væri búið að birta all­ar frétt­ir úr gögn­un­um sem þeir hefðu viljað þegar lög­bannið var sett á. Þá færi birt­ing gagn­anna gegn ákvæðum laga um per­sónu­vernd og meðferð per­sónu­upp­lýs­inga og frek­ari birt­ing geti leitt til mögu­legr­ar skaðabóta­skyldu fé­lags­ins.

Stutt var til alþing­is­kosn­inga er sýslumaður staðfesti lög­banns­kröf­una, en um­fjöll­un Stund­ar­inn­ar og Reykja­vík Media hafði að miklu leyti snú­ist um viðskipti Bjarna Bene­dikts­son­ar, for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, við Glitni í aðdrag­anda hruns ís­lenska fjár­mála­kerf­is­ins haustið 2008.

Eftir úrskurð Landsréttar hélt Stundin umfjölluninni áfram þrátt fyrir að áfrýjunarfrestur Glitnis væri ekki liðinn, en sá tími var þrjár vikur. Sagði ritstjórn Stundarinnar að birtingin hefði verið byggð á lögfræðilegum og siðferðilegum grunni.

Glitnir sótti um að áfrýja úrskurði Landsréttar og Hæstiréttur féllst á þá beiðni í lok nóvember. Verður málið nú tekið fyrir í Hæstarétti, einu ári og fimm mánuðum eftir að sýslumaður setti lögbannið upphaflega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert