Sigurður Bogi Sævarsson
Framkvæmdir eru langt komnar við byggingu alls níu lítilla fjórbýlishúsa, með 36 íbúðum, við Álalæk í svonefndu Hagalandi á Selfossi.
Íbúðirnar eru hver um sig tæpir 82 fermetrar að flatarmáli, íbúðirnar eru þriggja herbergja, með tveimur svefnherbergjum, rúmgóðri stofu, þvottahúsi og geymslu, baðherbergi og eldhúsi.
„Hér erum við með íbúðir sem eru, að mínu mati, nákvæmlega það sem markaðurinn kallar eftir; litlar og notadrjúgar eignir á hóflegu verði. Helmingur íbúðanna í þessari þyrpingu er þegar seldur en afganginn ákváðum við að bíða aðeins með að selja. Ég geri ráð fyrir að íbúðirnar sem eftir eru fari fljótt en þær verða settar á söluskrá innan fárra vikna,“ segir Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri Akurhóla ehf., sem stendur að þessu verkefni.
Á Selfossi hefur mikið verið byggt síðustu árin, s.s. fjöldi rað- og parhúsa. Að undanförnu hafa svo bæst við nokkrar blokkir í Hagalandinu, sem er syðst og vestast á Selfossi, við Eyrarbakkaveg nærri flugvellinum. Allt þetta helst í hendur við mikla fólksfjölgun í byggðarlaginu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.