Óskar eftir samráði um stefnumótun

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kallar eftir samráði um stefnumótum í málefnum barna.

Ásmundur hefur boðað heildarendurskoðun barnaverndarlaga og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu kerfa. Við vinnuna er lögð áhersla á víðtækt samstarf og samvinnu, hvort sem um ræðir breytingar á lögum, á reglugerðum eða framkvæmd þjónustu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu. 

„Í því skyni var í lok febrúar sent út bréf til ríflega 600 viðtakenda um allt land sem hafa með málefni barna að gera. Bréfið hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Í því er vakin athygli á yfirstandandi vinnu og bent á að þeir sem hafa áhuga á að koma að henni á einhverjum stigum geti sent ábendingar eða komið upplýsingum á framfæri í gegnum tölvupóst. Eins er hægt að óska eftir þátttöku í hliðarhópum og opnum fundum. Athugasemdir og ábendingar þurfa að hafa borist ráðuneytinu fyrir 25. mars . Þess má geta að viðbrögðin hafa nú þegar verið vonum framar og greinilegur vilji í samfélaginu til að vinna saman í þágu barna.

Vinnunni er stýrt af félagsmálaráðuneytinu og hefur félags- og barnamálaráðherra skipað þverpólitíska nefnd þingmanna til að hafa yfirumsjón með mótun stefnunnar. Hún starfar með fagfólki og notendum kerfisins víða að úr samfélaginu. Samhliða starfa opnir hliðarhópar sérfræðinga um tiltekin málefni. Þá eru fyrirhugaðir opnir fundir á síðari stigum vinnunnar og stærri ráðstefna á vormánuðum,“ segir í fréttatilkynningu. 

„Aðgerðir til stuðnings börnum og fjölskyldum eru ein dýrmætasta fjárfesting sem samfélagið getur ráðist í. Ég bind vonir við að við sameinumst um þetta mikilvæga og umfangsmikla verkefni þvert á stöðu, fagsvið og flokka,“ segir Ásmundur Einar í tilkynningu.

Fyrrnefndir hliðarhópar eru að hefja vinnu með þingmannanefnd og verkefnastjóra í málefnum barna hjá félagsmálaráðuneytinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert