„Það eru grafalvarleg tíðindi sem hafa borist í gegnum fréttir af heilsuspillandi rakaskemmdum í húsnæði sem heyrir undir skóla- og frístundasvið Reykjavíkur. Það vekur einnig óhug að slíkum tilfellum hefur fjölgað nokkuð að undanförnu – rétt eins og einhvers konar myglufaraldur sé í uppsiglingu á þeim stöðum sem mygla ætti einna síst að fá að grassera.“
Þetta segir í bókun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks í umhverfis- og heilbrigðisráði lögðu fram í gær á sérstökum aukafundi sem haldinn var vegna umfjöllunar um myglu- og rakavandamál í byggingum á vegum Reykjavíkurborgar að undanförnu.
Voru það fulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúi Miðflokks sem óskuðu eftir þessum fundi og var slæmt ástand Fossvogsskóla meðal annars tilefni fundarins, en alls er vitað um slæmt ástand í fjórum skólum og þremur til fjórum frístundamiðstöðvum.
„Langvarandi fjársvelti meirihlutans í Reykjavík hvað snýr að viðhaldi á húseignum borgarinnar er nú að birtast í þeirri myrku mynd sem nú blasir við. Þetta ástand er afleiðing af uppsöfnuðum viðhaldsskorti og rangri forgangsröðun í stjórn borgarinnar. Ljóst er að endurskoða þarf alla verklagsþætti og verkferla er varða úttektir á skólahúsnæði og setja fram raunhæfa áætlun um endurbætur og viðhald. Ljóst er að fara þarf í allsherjarúttekt á skólahúsnæði í borginni í ljósi þeirra tilvika sem komin eru upp. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa nú þegar lagt fram tillögu þess efnis í borgarráði,“ segir enn fremur í bókun sjálfstæðismanna í umhverfis- og heilbrigðisráði.