Tekur á kennara Fossvogsskóla að henda verkefnum

Kennarar og aðrir starfsmenn vinna nú að flutningi skólahalds í …
Kennarar og aðrir starfsmenn vinna nú að flutningi skólahalds í Laugardalinn. Mikil vinna fer í að meta hverju þarf að henda, hvað sé hægt að hreinsa og hvað skal sett í geymslu. Henda þarf verkum nemenda í verk- og listgreinum en foreldrar geta fengið verk barna sinna kjósi þeir svo. mbl.is/Árni Sæberg

„Starfsmenn skólans eru að taka til hluti sem á að farga, hluti sem hægt er að taka með í nýtt húsnæði og hluti sem geyma á til næsta skólastarfs,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, um stöðu mála í Fossvogsskóla sem hefur verið lokaður vegna myglu sem þar fannst frá 13. mars. Skólahald mun ekki fara fram í því húsnæði fyrr en á næsta skólaári þegar búið er að gera við skemmdir.

Fara eftir leiðsögn sérfræðinga

„Við njótum leiðsagnar sérfræðinga hvað varðar frágang á hlutum úr skólanum og fylgjum þeirra leiðbeiningum í einu og öllu. Við höfum reynslu frá öðrum stöðum og ef það á að nota hlutina aftur þarf að hreinsa þá og sumt er þess eðlis að það svarar ekki kostnaði,“ segir Helgi og bendir á að ekki sé ráðlegt að taka bólstruð sæti og svamp með úr rýmum sem mygla hefur verið í án hreinsunar eða útskiptingar. Helgi segir að engar bækur verði teknar með af bókasafni skólans.

„Bókasafnið var við útvegg þar sem hafði verið mikill leki. Við munum því bíða með ákvörðun um bækurnar þar til við vitum hvernig ástandið var í rými bókasafnsins. Þeim verður þá annaðhvort hent eða kannað hvort hægt sé að hreinsa þær með einhverri tækni,“ segir Helgi og bætir við að Fossvogsskóli fái lánaðar bækur þar til skólahald hefjist að nýju í endurbættum skóla.

„Starfsfólk skólanna hefur unnið á fullu í tvo daga við að ganga frá og henda. Það er tregablandið verkefni kennara að þurfa í einhverjum tilfellum að henda verkefnum og verkefnabönkum sem þeir hafa nýtt sér á pappírsformi. Þetta er heilmikil vinna og það má kannski segja að fyrir marga séu breytingarnar með ákveðnum hætti nýtt upphaf.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert