Fyrri þyrlan af tveimur í bráðabirgðaendurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar kom til landsins í dag. Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að tilkoma þyrlunnar muni stuðla að aukinni getu Landhelgisgæslunnar til að takast á við komandi verkefni.
Gæslan hefur þrjár þyrlur á snærum sínum en tvær er hún með á leigu. TF-LIF er í eigu gæslunnar og nú verður TF-GNÁ og TF-SÝN skipt út fyrir aðrar nýrri vélar af sömu fjölskyldu, það er Super Puma. Vélin sem kom til landsins í dag frá Noregi ber heitið TF-EIR. „Í vélinni er nýrri búnaður og hún er hæfari en sú eldri að öllu leyti,“ segir Sigurður. Seinni vélin kemur til landsins á næstu vikum og mun hún fá nafnið TF-GRÓ og leysir hún TF-SÝN af hólmi.
Vélin sjálf er hins vegar ekki splunkuný. „En þetta er nýjasta gerð af Super Puma-fjölskyldunni og lítur mjög svipað út en er örlítið þyngri, stærri og öflugri. Öll sjálfvirkni og tæki um borð eru ný eða nýlegri og ættu að gefa okkur meiri getu til að nýta tækin til þeirra verka sem við notum vélarnar í,“ segir Sigurður.
Þyrlan kom til landsins frá Noregi í dag en verður líklega ekki tekin í formlega notkun fyrr en í apríl eða maí. „Það sem þarf að gera er að þjálfa flugvirkja og flugmenn og við erum langt á veg komin með flugmennina. Vélarnar koma hægt og rólega í þjónustu, þetta tekur alltaf meiri tíma en menn halda og það er töluverð pappírsvinna í kringum þetta,“ segir Sigurður.
Þyrluútköllum Landhelgisgæslunnar hefur fjölgað á síðustu misserum og segir Sigurður að nýju vélarnar muni stuðla að auknu öryggi í komandi verkefnum. „Þetta eru öflugri vélar og ættu að geta aukið öryggi og hæfni okkar til þess að sinna þeim verkefnum sem koma.“ Hann minnir hins vegar á að þyrlurnar séu hluti af því ferli sem nú stendur yfir í útboðsmálum.
„Þetta eru spennandi tímar, við erum að endurnýja leiguflotann en líka að vinna í þyrluútboðsmálum. Allt er þetta spennandi en vissulega mikil vinna og tekur aðeins á, þannig. Það sem maður hlakkar mest til að sjá er meira öryggi og hæfari verkfæri til að nota í þau verkefni sem við erum að fara í.“
Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is fékk að slást með í för þegar TF-EIR kom til landsins í dag líkt og sjá má á myndunum hér að neðan.