Á ekki að snúast um heppni

Sig­ur­rós Á. Gunn­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sjón­ar­hóls, segir mikinn fjölda mála sem …
Sig­ur­rós Á. Gunn­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sjón­ar­hóls, segir mikinn fjölda mála sem inn á borð Sjónarhóls koma tengjast skólastigunum þremur, leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Sjónarhóll er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra og aðstandendur barna með sérþarfir. Á hverju ári leitar þangað fjöldi foreldra þar sem börn þeirra eru ekki að fá þann stuðning í kerfinu sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt. Stundum nægir að benda skólum og sveitarfélögum á að brotið sé á rétti barna en stundum þarf frekari inngrip.

„Öll börn eiga rétt á góðri þjónustu. Hvort heldur sem þjónustan er veitt af skóla eða sveitarfélagi,“ segir Sig­ur­rós Á. Gunn­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sjón­ar­hóls, þegar hún er spurð út í stöðu fatlaðra barna í skólakerfinu en mbl.is hefur upplýsingar um að það sé afar mismunandi eftir skólum hvaða stuðning fötluð börn fá í grunnskólum landsins.

Til að mynda hafi foreldrar þurft að berjast fyrir því að börn þeirra, sem eru líkamlega fötluð, fái tvö eintök af kennslubókum – aðra til að nota heima en hina í skólanum  og fengið synjun i fyrstu á þeirri forsendu að hvert barn hafi rétt á einu eintaki. Dæmin eru mýmörg þegar kemur að stöðu fjölskyldna þar sem börn þurfa á stuðningi að halda líkt og starfsfólk Sjónarhóls þekkir.

Þjón­ust­a Sjónarhóls er veitt án end­ur­gjalds en þar er veitt for­eldramiðuð ráðgjaf­arþjón­usta þar sem þarf­ir fjöl­skyld­unn­ar eru í brenni­depli. Hvort held­ur sem for­eldr­ar tala ís­lensku eða enga ís­lensku því Sjón­ar­hóll út­veg­ar túlka án end­ur­gjalds fyr­ir fólk af er­lend­um upp­runa. Markmið og stefna Sjónarhóls er að veita foreldrum stuðning í hlutverki sínu með ráðgjöf, koma á samstarfi foreldra, fag- og stuðningsaðila. Áhersla er lögð á miðlun upplýsinga um réttindi foreldra til þjónustu, tengja saman þjónustuúrræði og veita aðstoð við að fylgja málum eftir þar til þau eru komin í örugga höfn. Sjónarhóll styður börn með því að styðja foreldra.

Sigurrós tekur ferðalög út fyrir skólann sem dæmi um það …
Sigurrós tekur ferðalög út fyrir skólann sem dæmi um það sem mætti huga betur að. Til að mynda ferðir á Reyki, Lauga eða á skíði. „Í sumum tilvikum eru foreldrar þessara barna beðnir um að hafa þau heima. Við fáum of mörg svona mál og þeim fylgir svo mikil sorg,“ segir hún. mbl.is/Sigurjón

Sigurrós segir mikinn fjölda mála sem inn á borð Sjónarhóls koma tengjast skólastigunum þremur, leik-, grunn- og framhaldsskólum. Skólamálin eru oft ansi flókin og geta meðal annars falið í sér skort á viðeigandi stuðningi, úrræðum og/eða erfiðum samskiptum heimilis og skóla. Sigurrós segir það upplifun ráðgjafa Sjónarhóls að faglega ráðgjöf þurfi að efla til starfsfólks skóla um úrlausnir, vinnubrögð, verklag og kennsluaðferðir svo börn sem glíma við vanda eða börn sem þurfa aðra nálgun geti notið sín í skólaumhverfinu. Það má ekki tengjast heppni að barn fái viðeigandi aðstoð og þjónustu. Öll höfum við heyrt „ég var svo heppin með skóla/kennara/félagsráðgjafa“ og svo framvegis, er svo heppin að búa í ákveðnu sveitarfélagi. Það er gott að vera heppin en það má ekki við í þessu samhengi, segir hún.

Margt hefur breyst á fáum áratugum og jafnvel árum. Mun oftar fá börn greiningar í stað þess að áður voru börn sem ekki pössuðu þráðbeint inn í fyrirframgefin box afgreidd sem óþekk eða heimsk. Greiningin getur legið ljós fyrir í einhverjum tilvikum strax á fyrsta ári eða síðar á lífsleiðinni. Þau sem greinast ung, til að mynda með langvinna sjúkdóma, fá stuðning strax í upphafi frá heilbrigðiskerfinu og eins í leikskóla þar sem yfirleitt er haldið þétt utan um hvert barn. En þegar barn kemur í grunnskóla getur orðið breyting á enda oft erfiðara að sinna hverjum og einum jafn vel og í leikskóla. En samkvæmt lögum á barn að eiga rétt á þeim stuðningi sem það þarf á að halda eftir að í skóla er komið. 

„Skólinn þarf að vera tilbúinn til þess að mæta þörfum allra barna. Það þarf að huga að húsnæði, námsgögnum og í raun öllu í sambandi við þau. Hvort sem þau eru með langvinna sjúkdóma, ADHD, einhverfu eða sama hvað er. Þar kreppir skórinn,“ segir Sigurrós.

Að hennar sögn hefur ekki verið lögð nægjanleg áhersla á stuðningsþjónustu innan veggja skólans og þörfina fyrir sérhæft starfsfólk, svo sem þroskaþjálfa o.fl. Að ráðnir séu stuðningsfulltrúar með menntun sem hæfir starfinu.

„Ég er alls ekki að setja út á fólk sem sinnir stuðningsþjónustu í grunnskólum landsins en þetta eru oft veikustu börnin sem fá ekki þann stuðning sem gæti aukið tækifæri þeirra til muna,“ segir Sigurrós.

Skólabyggingar verða að vera þannig að börn sem eru í …
Skólabyggingar verða að vera þannig að börn sem eru í hjólastól geti stundað þar nám. ljósmynd/norden.org

Foreldrar hreyfihamlaðra barna, til að mynda barna sem eru með vöðvarýrnun, eru meðal þeirra sem leita til Sjónarhóls vegna þess að skólahúsnæðið sem börn þeirra eru í er ekki hannað með tilliti til þess að þar geti börn stundað nám sem eiga erfitt með að komast á milli hæða. Jafnvel séu lyftur í húsnæðinu sem börnin fá ekki að nota þar sem það gæti orðið til þess að einhverjir aðrir krakkar notuðu lyftuna í fíflagangi. 

Sigurrós segir að það eigi ekki að koma skólastjórnendum á óvart fatlað barn hefur þar nám að hausti. Slíkt sé yfirleitt vitað með nokkrum fyrirvara og þessi börn eiga ekki að sitja á hakanum þegar kemur að námáætlunum og aðgengismálum. 

Hefðbundinn nemandi fær sína námsáætlun þegar hann mætir í skólann að hausti og það liggur ljóst fyrir að hverju sé stefnt í náminu strax í upphafi. Þegar nemendur víkja frá þessu hefðbundna getur tekið marga mánuði að fá einstaklingsmiðaða námskrá þrátt fyrir að kveðið sé á um einstaklingsmiðað nám í aðalnámskrá grunnskóla.

Að sögn Sigurrósar getur allur gangur verið á því hvort barnið fær yfir höfuð slíka námskrá eða hvort hún kemur þegar langt er liðið á skólaárið. Eins sé mikilvægt að ekki sé bara einblínt á bóknám því öll börn eigi rétt á því að fá kennslu í list- og verkgreinum sem og íþróttum.  

Sundtímar geta verið kvalræði fyrir ýmsa meðal annars vegna eineltis.
Sundtímar geta verið kvalræði fyrir ýmsa meðal annars vegna eineltis. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

Alls konar atriði geta gert börnum erfitt um vik þegar kemur að íþróttum og sundi. Bæði stirðleiki að morgni og eins ef börn þurfa að taka lyf að morgni þá getur tekið tíma þangað til þau eru einfaldlega fær um mikla hreyfingu. Svo eru þessir tímar oft kvalræði fyrir börn sem verða fyrir einelti. 

Flestir skólar eru viljugir til þess að samræma stundaskrá barna að þörfum þeirra, segir Sigurrós.

„En það sem ég tel að væri af hinu góða er að dagskrá barnsins sé skoðuð sem ein heild. Hvernig barnið virkar í viðkomandi aðstæðum. Til að mynda að fara í sund klukkan átta að morgni. Auðvitað vitum við að það getur verið erfitt að skipuleggja stundaskrá fyrir heilan árgang út frá einum nemanda en eitt af því sem hægt er að gera er að vera með sér sundtíma fyrir þann hóp sem á erfitt með að sækja sund með mörgum öðrum. Ærslin í sundinu, sturtan, búningsklefinn eru aðstæður sem mörg börn eiga erfitt með. Ef tekið er á þessu strax í upphafi skólagöngu barna er hægt að koma í veg fyrir aukinn kvíða hjá þessum hópi,“ segir hún.

„Við hjá Sjónarhóli hittum oft börn sem eru strax um helgar farin að kvíða sundtíma sem er kannski um miðja viku. Ef þau hefðu kost á að fara í sundtíma fyrir þá nemendur sem hreinlega treysta sér ekki í atið sem fylgir hinum hefðbundnu sundtímum er ég viss um að það gæti hjálpað mörgum og komið í veg fyrir kvíða sem er að vera eitt stærsta vandamál barna og ungmenna í dag,“ segir Sigurrós.

Það getur stundum reynst þrautin þyngri að fá eintak af …
Það getur stundum reynst þrautin þyngri að fá eintak af kennslubók heim til þess að barnið þurfi ekki að bera bókina heim úr skólanum þrátt fyrir að það sé fatlað. AFP

Annað sem oft er kvartað undan við ráðgjafa Sjónarhóls eru opin kennslurými. Það er þegar heilu árgöngunum er kennt af allt að þremur kennurum í stóru rými. Slæm hljóðvist hentar til að mynda einhverjum börnum og börnum með athyglisbrest illa vegna ónæðis sem truflar einbeitingu þeirra.

Margir skólar hafa brugðið á það ráð að setja þessi börn tímabundið í skammtímaúrræði, hvort sem það er innan skólans eða utan. Að sögn Sigurrósar hefur þetta breytt miklu í lífi margra barna því þarna er haldið vel utan um þau og þeim líður vel. Oft kynnast þau öðrum krökkum á annan hátt en þau gera í aðstæðum þar sem þeim líður illa. 

„Þau blómstra jafnvel félagslega og foreldrar binda oft vonir við að þegar barnið snýr aftur sé búið að laga aðstæður í kennslurýminu. Hins vegar er það oftar en ekki gert og mjög erfitt fyrir barnið að snúa aftur.“

Sigurrós tekur dæmi af einhverfu barni sem nýtur þess að vera í þéttu utanumhaldi í skammtímaúrræði, allt gengur betur og barnið orðið virkara og því líður betur. 

„En af því að það gengur svo vel er það tekið úr úrræðinu og sett í fyrri aðstæður að nýju. Hringekja vanlíðunar fer af stað hjá barninu og fjölskyldu þess. Jafnvel er gripið til þess að hólfa barnið frá öðrum í opna rýminu með skilrúmi. Barnið, sem líður illa, er sett á bás og til hliðar. Þar með er það slitið frá möguleikum á félagslegri virkni. Af hverju mega þessi börn ekki vera þar sem þeim líður vel?“ spyr Sigurrós og segir foreldra oft fá á tilfinninguna að skólarnir bíði eftir að losna við börnin þeirra sem er eðlilega vond tilfinning og ekki til þess fallin að styðja við bakið á fjölskyldum. 

Öll börn eiga rétt á menntun og viðeigandi skólagöngu segir Sigurrós en nýleg rannsókn sýnir að gera megi ráð fyrir að 2,2% grunnskólanema, eða um eitt þúsund börn, glími við skólaforðun hér á landi sem rekja má til kvíða, þunglyndis eða erfiðra aðstæðna heima fyrir.

Þá telja ríflega 74% skólastjóra að foreldrar og forsjáraðilar hafi of rúmar heimildir til að heimila eigin börnum fjarvist frá skóla og er mikill meirihluti þeirra hlynntur því að opinbert viðmið verði tekið upp, s.s. um hámarksfjölda daga vegna slíkra leyfisveitinga, að því er segir á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga en velferðarvaktin vann rannsóknina.

Sigurrós tekur undir margt hér og segir að skólaforðun verði að taka alvarlega og skoða hvert og eitt tilvik fyrir sig. Hún segir mikilvægt að vinna verði að því markmiði að fyrirbyggja skólaforðun með forvörnum og auknum stuðningi innan skóla- heilbrigðis- og félagsþjónustu. Enda geti skólaforðun í grunnskóla aukið hættuna á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskóla. Efla þarf stuðningsþjónustu innan skólanna auk stuðnings við heimili þeirra barna sem sækja ekki skóla.

mbl.is/ Hari

Ef nemandi mætir ekki í skóla vegna veikinda er kveðið á um í aðalnámskrá að hann eigi rétt á heimakennslu. Misjafnlega hefur gengið hjá skólum að sinna heimakennslu og eru margvíslegar skýringar á því. Þörf er á samræmdum viðmiðum um fjarvistarskráningar svo að hægt sé að fá upplýsingar um umfang og eðli vandans. Jafnframt hefur stundum skort á að skólayfirvöld tilkynni til barnaverndar um börn sem sjást lítið sem ekkert í skólanum. 

Hún segir að það sé hópur barna á grunnskólaaldri sem mæti kannski ekki mánuðum saman í skólann. Í einhverjum tilvikum getur verið það vegna eineltis sem þau verða fyrir í skólanum eða í tengslum við skólann. Sigurrós segist hafa alvarlegar áhyggjur af einelti því þrátt fyrir alls konar aðgerðir til þess að draga úr því þá virðist illa ganga að vinna bug á því samfélagsmeini. Oft er einelti falið inni í heimi sem er hulinn foreldrum og kennurum. Í stafrænum heimi sem foreldrar og kennarar hafa einfaldlega ekki aðgang að. 

Af ýmsu er að taka þegar kemur að menntakerfinu og það á ekki bara við um nemendurna sjálfa heldur einnig kennara sem eru að bugast undan álagi. Þetta sjáum við meðal annars á fjölda þeirra sem hafa þurft að leita til VIRK vegna álags í starfi.

„Það er orðið löngu orðið tímabært að starfsfólk skóla gangi harðar fram í að fá eðlilegt starfsumhverfi. Ef við ætlumst til þess að kennarar og aðrir starfsmenn grunnskóla geri allt það sem ætlast er til af þeim samkvæmt lögum landsins verður að bæta starfsumhverfi þeirra til muna. Við höfum einnig áhyggjur af einkavæðingu grunnþjónustunnar þar sem veikustu börnin eru í búsetu- og skólaúrræðum. Við hjá Sjónarhóli viljum að betur sé fylgst með því sem þar fer fram og eftirlit aukið með starfseminni. Fá þessi börn einstaklingsmiðað nám líkt og kveðið er á um í lögum?“ spyr Sigurrós. 

Hún segir að ekki sé hægt að setja öll börn undir sama hatt og hlúa þurfi að hverjum og einum. „Þar á ekki að skipta máli hvort barnið er fatlað, í vanda af einhverjum ástæðum eða af erlendu bergi brotið. Flestir skólar og starfsfólk þeirra sinna starfi sínu af mikilli alúð og gera allt til þess að börnum líði vel. Við eigum að nálgast einstaklingsmiðaða þjónustu innan mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfis út frá þörfum en ekki merkimiðum. Það hvaða greiningu barnið er með á ekki að skipta kerfið, sem veitir þjónustuna, máli, heldur hvaða þjónustu barnið þarf! Kerfið þarf að komast út úr sinni kassahugsun með flokkunarkerfi út frá merkimiðum og nálgast lausnir út frá kortlagningu á þörfum barnsins á öllum vígstöðvum daglegs lífs,“ segir Sigurrós Á. Gunn­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sjón­ar­hóls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert