Falin hætta á hálendinu

Hersing fólks kom að því að bjarga bílunum upp úr …
Hersing fólks kom að því að bjarga bílunum upp úr köldu lóninu. Ljósmynd/Eiður Smári Valsson

„Það er eiginlega ómögulegt að vita af þessu nema þú vitir upp á hár að þetta sé þarna,“ segir Eiður Smári Valsson leiðsögumaður um krapapytti sem verða að eins konar ísilögðum lónum á hálendinu. Tveir bílar fóru niður um vök í slíku lóni nærri Hnausapolli á Fjallabaki í síðustu viku. 

Eiður vakti athygli á krapapyttinum sem hefur breyst í lón á Facebook-síðu sinni nýverið og hvatti fólk til að vara sig á því. Krapapytturinn er orðinn að um tveggja metra djúpu vatni með 20-40 sentimetra þykkum ís ofan á sem heldur ekki bílum. 

Vanir menn óku bílunum sem fóru niður vökina en Eiður segir að jafnvel vönustu menn eigi erfitt með að sjá að ísilagt lón sem þetta sé fram undan. „Þetta lítur út eins og spegilsléttur sandur með smá ís eða snjó yfir.“

Lífshættulegar aðstæður

Það getur verið lífshættulegt að lenda ofan í vök sem þessari. „Ekki spurning. Það þarf ekkert að skafa ofan af því. Það var þó ekkert nálægt því í þetta skiptið. Það var bíll ekkert of langt í burtu og haugur af mannskap sem fór af stað svo þeir voru alveg í þokkalegum málum.“  

Ísinn á lóninu er 20-40 sentimetra þykkur og heldur ekki …
Ísinn á lóninu er 20-40 sentimetra þykkur og heldur ekki bílum. Ljósmynd/Eiður Smári Valsson

Eiður segir að það sé mjög óvenjulegt að svona lón myndist. „Ég myndi segja að það sé mjög óvenjulegt að svona aðstæður verði. Veturinn er auðvitað búinn að vera mjög snjóléttur og bjánalegur þannig að menn áttu kannski ekki von á því að þetta myndi myndast.“

Venjulega er hægt að keyra á svæðinu þar sem mennirnir lentu í vökinni. „Landið þarna liggur aðeins lægra en allt í kring. Þetta er í rauninni slétta en svo er örlítil dæld í henni þarna. Það er mjög vel þekkt að fólk getur ferðast þarna á veturna því þarna myndast krapi en nú hefur ekki verið neinn snjór og bara vatn í rauninni og allur snjór sem hefur myndast þarna hefur bráðnað jafnóðum. Í staðinn fyrir að það safnist vatn í snjó sem verður þá að krapa sem þú getur í raun ekki sokkið neitt djúpt í þá myndaðist bara stöðuvatn þarna.“

Reynsla og upplýsingaflæði mikilvægt

Eiður segir að reynslan hjálpi mikið til ef koma á auga á aðstæður sem þessar. „Reynslan og upplýsingaflæðið hjálpa til. Þess vegna setti ég þennan póst á Facebook. Það sést reyndar á hæðarlínum á kortum ef maður rýnir vel í þau að landið sé lægra þarna og yfirleitt eru fleiri jeppar á ferð saman sem eru ekki á jafn mikilli hraðferð og þeir voru þarna. Það þarf auðvitað líka að keyra varlega.“

Eiður segist ekki hafa orðið var við fleiri sambærileg lón á svæðinu. „Við höfum ekki orðið varir við það og við erum mikið þarna. Hálendið er bara snjólaust og færðin er fín.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert