Talið er að hundi sem komið var með á Dýraspítalann í Garðabæ á föstudagskvöld hafi verið byrlaður frostlögur. Komið var með hundinn á spítalann eftir að hann hafði étið fisk sem hafði verið blandaður frostlegi.
Í Facebook-færslu dýraspítalans segir að atvikið hafi átt sér stað á golfvellinum á Holtinu og hefur atvikið verði tilkynnt til Matvælastofnunar. Ekki er ljóst hvort hundurinn hafi orðið fyrir varanlegum skaða, hann varð fárveikur og hefur þurft mikla meðhöndlun, en er á batavegi.
„Sá sem gerir svona er fársjúkur einstaklingur,“ segir í færslunni og eru gæludýraeigendur jafnframt beðnir um að vera á varðbergi og veita lögreglu og MAST upplýsingar um grunsamlega hegðun sem geti bent til tengsla við atvikið.
Í færslunni er jafnframt að finna upplýsingar varðandi einkenni, leiki grunur á að gæludýrum hafi verið byrlaður frostlögur.