Fyrirhuguð verkföll rútubílstjóra hjá Eflingu sem hefjast eiga á föstudaginn gætu haft talsverð áhrif á skólaakstur í Reykjavík. Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.
Eftir að upp komst um myglu í Fossvogsskóla og ákveðið var að færa skólahald í Laugardal varð ljóst að keyra þarf börn á milli Fossvogs og Laugardals. Þá segir hann að börn í Skerjafirði séu keyrð yfir í Melaskóla, auk þess sem skólabílar keyri skólabörn á flestum stöðum í sund.
„Þetta hefur áhrif,“ segir Helgi og bætir við að möguleg verkföll hreingerningastarfsfólks geti einnig haft áhrif. „Það myndi hafa áhrif á alla leikskóla og fjölmarga grunnskóla,“ segir hann. „Við erum að kortleggja þetta núna.“