Fresta veislu þingmanna vegna verkfalls

Til stóð að halda árlega veislu alþingismanna á Hótel Sögu. …
Til stóð að halda árlega veislu alþingismanna á Hótel Sögu. Henni hefur nú verið frestað. mbl.is/Eggert

Árlegri veislu Alþingis hefur verið frestað vegna verkfalls, en stefnt var að því að halda hana föstudaginn 22. mars á Hótel Sögu. Þetta staðfestir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is.

„Við vildum bara alls ekki að það gæti verið neinn minnsti vafi á því að verkfallið væri virt á þeim vinnustað sem við hefðum fengið inni fyrir okkar veislu og það var ekki þægileg tilhugsun að það gæti verið eitthvað óljóst eða óvissa í þeim efnum,“ segir Steingrímur.

Steingrímur segir þingmenn sjálfa standa undir kostnaði við veisluna og að vonir standi til að hún verði haldin þegar líður á vorið.

Fyrstu sameiginlegu verkfallsaðgerðir Eflingar og VR fara fram á föstudaginn og ná þær til starfsfólks á hótelum og hópbifreiðastjóra. Verkfallsaðgerðir eru svo boðaðar áfram í hverri viku fram til 1. maí, en þá er gert ráð fyrir ótímabundinni vinnustöðvun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka