Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Íslands á föstudaginn. Var þar um að ræða skemmtiferðaskipið Astoriu sem lagðist við akkeri í Reykjavík með um 550 farþega og 280 manna áhöfn innanborðs.
Áætlað er að Astoria hafi fimm sinnum viðkomu í Reykjavík á árinu. Alls eru 200 komur til Faxaflóahafna áætlaðar í ár, með alls 190.269 farþega um borð. Þetta er fjölgun um rúm 24% í skipakomum frá síðasta ári og 22% fjölgun farþega. Samkvæmt heimasíðu Faxaflóahafna er ein ástæðan fyrir siglingum til Íslands svo snemma árs aukinn áhugi á norðurljósasiglingum.
Hinn 19. júlí er áætlað að skemmtiferðaskipið Queen Mary 2. komi til Reykjavíkur. Það skip er 345 metrar að lengd og verður því lengsta skemmtiferðaskip sem komið hefur til Íslands.