Bergið Headspace, úrræði fyrir ungt fólk, verður til húsa á Suðurgötu 10 í Reykjavík en leigusamningur þess efnis var undirritaður í morgun.
„Við erum ótrúlega ánægð að vera búin að festa okkur húsnæði. Þetta er frábært húsnæði á góðum stað í bænum, með sérstaklega góðum anda og góðum leigusölum,“ segir Sigurþóra Bergsdóttir, einn af stofnendum Bergsins.
„En þetta er auðvitað ákveðið stökk og ákvörðun sem þurfti bara að taka,“ bætir hún við en leitin að rétta húsnæðinu hafði staðið yfir í hálft ár.
Sigurþóra segir að lagt hafi verið upp með að fólki liði vel í húsnæðinu. „Við byggjum þetta svolítið á brjóstvitinu. Það þarf að vera gott aðgengi og hægt að koma með strætó, þannig að fólk upplifi að það verði ekki erfitt að koma.“
Úrræðið er svokölluð lágþröskuldaþjónusta sem byggir á Headspace sem er ástralskt úrræði fyrir ungt fólk. Slíkum miðstöðvum hefur meðal annars verið komið upp í Danmörku. Hugmyndafræðin þar byggist á því að ungt fólk á aldrinum 12 - 25 ára geti gengið að því sem vísu að eiga kost á því að leita til einhvers, sama hversu stór eða lítil vandamálin eru.
Bergið verður þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk þar sem í boði verður einstaklings- og áfallamiðuð þjónusta.
Skrifað var undir leigusamninginn í morgun á sama mánaðardegi og sonur Sigurþóru, Bergur Snær, framdi sjálfsvíg í mars árið 2016 eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. „Það er táknrænt að nota dagsetningu á versta degi lífs míns í að leggja drög að úrræði sem mun vonandi hjálpa ungmennum dagsins í dag og til framtíðar,“ skrifaði Sigurþóra fyrr í dag á Facebook-síðu sína.
Húsnæðið verður afhent 1. apríl og kveðst Sigurþóra bjartsýn á að úrræðið verði opnað síðar í sama mánuði. Húsnæðið er tæpir 300 fermetrar með nokkrum viðtalsherbergjum og sameiginlegu rými. Hægt verður að styrkja verkefnið á næstunni en finna má nánari upplýsingar um það í Facebook-færslu Sigurþóru.