Snorri Másson
Þorri allra félagsmanna ASÍ gæti verið farinn í undirbúning verkfallsaðgerða á allra næstu dögum ef sáttatilraunir reynast árangurslausar í dag og á morgun. Þeir skipta mörgum tugum þúsunda og mynda þannig stærstan hluta almenna vinnumarkaðarins.
Forsvarsmenn Samiðnar segja „ómögulegt að halda viðræðum áfram.“ Iðnaðarmenn taka stöðuna í dag en funda með Samtökum atvinnulífsins á morgun. Ef ekki koma fram „nýjar hugmyndir“ frá SA í tæka tíð fyrir það, segist Samiðn tilneydd að lýsa yfir árangurslausum viðræðum og í kjölfarið ráðast í undirbúning verkfallsaðgerða.
„Við erum að undirbúa okkar hópa og þetta getur farið í báðar áttir,“ segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar. Hann segir bakslag hafa komið í viðræðurnar fyrir helgi, að SA hafi lagt fram kröfur sem Samiðn fannst ganga of langt.
Fundur Starfsgreinasambandsins við SA hjá ríkissáttasemjara í dag verður að líkindum sagður árangurslaus, ef ekkert nýtt berst frá SA. Í kjölfarið verður farið í að skoða verkfallsaðgerðir. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, sagðist í gærkvöld enga trú hafa á því að SA gæfi eftir fyrir fundinn í dag.
Á fundi Framsýnar, einu aðildarfélagi SGS, verður lagt til á morgun að afturkalla samningsumboðið frá SGS. Í umfjöllun um kjaradeilurnar í Morgunblaðinu í dag segir að heimildir blaðsisn herma að fleiri félög gætu fylgt í kjölfarið og tekið upp á því sama.