Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga, samþykkti á fundi sínum í kvöld að afturkalla samningsumboð sem félagið hefur veitt Starfsgreinasambandinu (SGS). Tillaga þess efnis var samþykkt einróma og var mikill hugur í mönnum á fundinum, segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, í samtali við mbl.is.
„Það er síðan þannig að þau félög sem þegar hafa afturkallað samningsumboð sitt eins og Efling, Verkalýðsfélögin á Akranesi (VLFA) og í Grindavík (VLFG), auk VR, þau hafa verið í sambandi við okkur og hafa boðið okkur velkomin að slást í för með þeim. Það munum við gera,“ segir Aðalsteinn.
Spurður hvort einhugur sé um samstarf við hin fyrrnefndu félög segir hann svo vera. „Það kom fram á fundinum að það er mikill áhugi á því að vinna með þessum félögum.“
Aðalsteinn segir félögin eiga mikla samleið þar sem VR, Efling, VLFA og VLFG séu þau einu sem hafa alfarið hafnað vinnutímabreytingum sem Samtök atvinnulífsins (SA) hafa lagt til. Formaðurinn segir Framsýn ávallt hafa haft sömu afstöðu gagnvart þessum tillögum SA og því eðlilegt að félögin starfi saman.
„Því miður er það þannig að innan hreyfingarinnar hafa verið einstaklingar sem hafa viljað skoða þetta, en maður áttar sig ekki á því. Þetta er bara bullandi kjaraskerðing fyrir fólk að skera niður yfirvinnutíma og lengja dagvinnutíma,“ segir Aðalsteinn.
Ríkissáttasemjara hefur þegar verið tilkynnt um ákvörðun Framsýnar að sögn formannsins og mun samningsumboðið verða afturkallað formlega seinna í kvöld eða í fyrramálið.