„Að búa við múr sem sundrar og skilur að fjölskyldur hefur gríðarleg áhrif á andlega líðan fólks og ekki síst barna,“ segir Fathy Flefel, verkefnastjóri sálfræðiseturs palestínska Rauða hálfmánans. Hann var hér á landi í síðustu viku en Rauði krossinn á Íslandi og Rauði hálfmáninn í Palestínu hafa unnið saman lengi.
Flefel segir íslenska Rauða krossinn hafa unnið frábært starf bæði hér á landi og annars staðar og að Palestínumönnum þyki afar vænt um þann mikla stuðning sem þeir hafi fengið frá Íslendingum í gegnum tíðina.
Ýmsar þjóðir heims viðurkenndu Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1988. Alþingi Íslendinga ályktaði samhljóða árið 2011, að viðurkenna bæri Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Ísland var fyrsta ríkið í Vestur-Evrópu sem viðurkenndi Palestínu með formlegum hætti.
Hann hefur starfað í 27 ár fyrir Rauða hálfmánann og farið á vegum samtakanna víða um heim þar sem hann hefur unnið með fólki sem hefur þurft á sálrænum stuðningi að halda vegna átaka eða náttúruhamfara. Meðal annars í Írak, Íran, Líbanon, Jemen, Sýrlandi Jórdaníu, á Indlandi í kjölfar flóðbylgjunnar, Tyrklandi og víða í Evrópu.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem hingað til lands en hér hef ég rætt við bæði hælisleitendur, starfsfólk Rauða krossins, sjálfboðaliða, starfsmenn hins opinbera og fleiri. Á stöðum eins og Íslandi eru fáir flóttamenn og hælisleitendur og það getur verið erfiðara en þegar þeir eru fleiri þar sem þú getur ekki leitað til annarra sem koma úr sömu aðstæðum og þú sjálfur. Fengið stuðning og rætt við einhvern sem deilir sömu reynslu og talar sama tungumál.
Við getum ekki sett alla undir sama hatt bara vegna þess að þeir eru neyddir á flótta frá heimalandinu. Fólk sem kemur hingað er ekki hér af fúsum og frjálsum vilja heldur hefur það neyðst til þess að flýja aðstæður sem ógna lífi þeirra,“ segir Flefel.
Spurður út í aðstöðuna sem flóttafólk og hælisleitendur búa við á Íslandi segist hann ekki hafa skoðað Ásbrú (viðtalið var tekið miðvikudaginn 13. mars) en honum sýndist að aðbúnaðurinn væri allt í lagi þar sem hann hafði heimsótt hælisleitendur og flóttafólk. Hins vegar kvartaði fólk yfir aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem er eitthvað sem þyrfti að bæta og unnið væri að því að laga.
„Ég sé og heyri ekki betur en að Íslendingar séu að gera sitt besta og vonandi verður hægt að koma heilbrigðisþjónustunni í betra horf. Ég veit að Rauði krossinn hefur unnið mjög gott starf hér á landi líkt og hann hefur gert annars staðar. En það má alltaf gera betur og ekki síst þegar kemur að félagslegum stuðningi. Því það er auðvelt að gefa teppi en þú gefur ekki hlýju. Við þurfum að horfa meira á hlýjuna en teppið sjálft. Að bæta líf fólks sem kemur úr skelfilegum aðstæðum og hefur jafnvel búið við þær alla sína ævi líkt og við sjáum í mínu heimalandi, Palestínu,“ segir Flefel.
Í grófum dráttum snýst deila Palestínumanna og Ísraela um land. Í svari Magnúsar Þorkels Bernharðssonar, prófessors í sögu Mið-Austurlanda við Williams College, Massachussets, á Vísindavef Háskóla Íslands, kemur fram að það sem geri þessa deilu sérstæða er að hún er ekki einskorðuð við þessa tvo aðila. Landið, sem er oft nefnt „Landið helga“, er miðlægt í þrennum mikilvægum trúarbrögðum, kristindómi, íslam og gyðingdómi. Þar af leiðandi er fylgst með þessum átökum af meiri áhuga um allan heim en sambærilegum deilum annars staðar svo sem í Kasmír eða Súdan.
Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar gáfust Bretar upp á að stjórna þessu landsvæði, árið 1947 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar tillögu, sérstaklega með hliðsjón af þeim hörmungum sem gyðingar urðu að þola í stríðinu í Evrópu, um að skipta Palestínu í tvennt, eitt ríki handa aröbum og annað fyrir gyðinga. Þessi tillaga, sem mætti mikilli andstöðu frá ríkjum araba, var gyðingum í hag hvað varðar gæði og stærð landsins. Palestínumenn voru alfarið andvígir skiptingu landsins enda álitu þeir að þetta væri þeirra eigið land og vildu ekki þurfa að láta af hendi eigið land til að gjalda fyrir að gyðingar hefðu þurft að þola helförina í Evrópu og orðið landflótta þaðan, segir í svari Magnúsar Þorkels.
Þann 14. maí 1948, sama dag og Bretar yfirgáfu Palestínu, lýstu gyðingar yfir stofnun nútímaríkisins Ísrael. Yfirlýsingunni var ekki vel tekið og sendu nokkur ríki hersveitir sínar til að berjast gegn þessu nýja ríki. Ísrael fékk mikla aðstoð erlendis frá og náði að verjast.
Í kjölfar þessa stríðs og annarra aðgerða Ísraelshers voru margir Palestínumenn, sennilega um 700.000 manns, hraktir frá heimilum sínum og urðu flóttamenn. Í stað þess að verða sjálfstætt ríki urðu Palestínumenn annaðhvort innlyksa í landi gyðinga eða flóttamenn í öðrum ríkjum araba svo sem í Jórdaníu eða Sýrlandi. Palestínumenn urðu því upp til hópa heimilislausir. Þeir höfðu aðeins að litlu leyti skapað þetta ástand sjálfir heldur voru þeir fórnarlömb ákvarðana alþjóðlegra stofnana og stórvelda á Vesturlöndum. Það er kannski ekki að ófyrirsynju sem Palestínumenn hafa allar götur síðan vantreyst alþjóðastofnunum, sem þeir telja hliðhollar Ísrael, og haft ótrú á öllum afskiptum Vesturlanda, segir á Vísindavef HÍ.
Á næstu áratugum voru háð stríð með reglulegu millibili (1956, 1967, 1973 og 1982). Í þessum átökum, þó sérstaklega í átökunum 1967 og 1973, unnu Ísraelar yfirburðasigur enda naut Ísrael verulegs fjárstuðnings og hernaðaraðstoðar frá Bandaríkjunum. Í stríðinu 1967 hernámu Ísraelar vesturbakka Jórdanárinnar – svæði sem áður tilheyrði Jórdaníu – en íbúar þess voru mestmegnis Palestínumenn. Við þetta hernám, sem átti að vera tímabundin aðgerð, lentu enn fleiri Palestínumenn undir stjórn Ísraelsríkis.
Skrifstofa Flefel er á Vesturbakkanum sem hefur því verið hernumið svæði í 52 ár. Hann segir að erfitt sé fyrir þá sem ekki til þekkja að setja sig í aðstæður fólks á þessu svæði. Að þurfa að sækja sérstaklega um heimild til þess hitta fjölskyldu sína sem kannski býr hinum megin við múrinn. Að þurfa að fá heimild til þess að fara á landareign sína til þess að planta grænmeti. Að bíða tímunum saman við hlið Vesturbakkamúrsins upp á von og óvon.
„Við reynum að styðja fólk eins og við getum en það bætir ekki stöðu okkar að um 200 þúsund opinberir starfasmenn fá ekki greidd laun sín vegna ákvarðana stjórnvalda í Ísrael. Þetta bitnar ekki síst á mennta- og heilbrigðiskerfinu og ekki bætir atvinnuleysið úr skák en það mælist yfir 50% á Gaza og 24% á Vesturbakkanum.“
Flefel segir að í Palestínu sé að vaxa úr grasi kynslóð sem þekki ekki annað en stríðsástand og fleiri hundruð palestínsk börn eru í varðhaldi yfirleitt á grundvelli ákæru um að hafa kastað grjóti.
Eitt af því sem Íslendingar ættu að gera sé að bæta aðbúnað fólks á meðan það bíður eftir svari um hvort það fær hæli hér. Biðtíminn sé öllum erfiður og ekki síst ef fólk hefur ekkert fyrir stafni. Eins er mikilvægt að húsnæði þess sé þannig úr garði gert að fólk nái að slaka meira á og skoða mál sín með aðstoð Rauða krossins eða annarra mannúðarsamtaka segir Flefel.
„Ég held að það sé mikilvægt að bjóða upp á sérstök prógrömm fyrir börn þannig að þau nái að tengjast betur íslensku samfélagi og ekki síst íslenskri veðráttu. Fólkið sem kemur hingað til lands er flest að koma frá Afríku og Mið-Austurlöndum og það er ákveðið áfall að koma í allt annað veðurfar og yfir vetrartímann getur myrkrið reynt verulega á,“ segir Flefel og bætir við að í Mið-Austurlöndum sé fólk mikið úti við. Það hittist og spjallar saman, börn leika sér úti ólíkt því sem er á Íslandi þar sem veðráttan býður ekki upp á það nema brot úr ári.
„Hér held ég að allir geti gert betur, það er yfirvöld sem og frjáls félagasamtök. Ef við tökum fylgdarlaus börn á flótta sem hingað koma þá er ekki annað að sjá og heyra en þau séu sátt við búsetuúrræðið í Hafnarfirði og þau eru að eigin sögn örugg. Ég upplifði ekki annað þegar ég ræddi við þau og þau virðast afslöppuð og meðvituð um réttindi sín. Þau þyrftu hins vegar meiri sálrænan stuðning og eins þyrfti að bæta félagslega þáttinn. Það er eitthvað sem frjáls samtök eins og Rauði krossinn gætu komið meira að, svo sem með því að tengja þau íslenskum ungmennum og fjölskyldum þeirra. Þetta myndi bæta líf þeirra mjög og hér er ég ekki að tala um aðlögun [integration] heldur að tengja saman ólíka menningarheima sem getur orðið til þess að fólk upplifi sig sem hluta af íslensku samfélagi án þess að missa það sem þú átt,“ segir Flefel.
Hann ítrekar að ekki megi gleyma því að flóttafólk sem er að koma til Íslands er ekki að koma hingað ánægjunnar vegna heldur vegna þess að það á ekki aðra kosti en að flýja heimaland sitt. „Þau koma hingað til að öðlast nýtt líf. Það er stórt skref sem verður að taka með aðstoð Rauða krossins og fleiri aðila,“ segir hann.
Flefel segir að fólk geti ímyndað sér stöðu barna og ungmenna í flóttamannabúðum sem hafa kannski ekki verið í skóla árum saman. „Fólk sem kemur úr þessum aðstæðum getur þurft á sálrænum stuðningi í langan tíma að halda en alls ekki allir. Það er í raun ekki hægt að setja alla undir sama hatt því flóttafólk er fjölbreyttur hópur líkt og fólk er almennt. En það sem flóttafólk á sameiginlegt er að von um líf hefur smátt og smátt fjarað út eftir því sem tíminn líður og það getur tekið langan tíma að koma voninni í huga fólks að nýju. Að búa til traust og aðstoða fólk við að trúa á að fjölskyldan sé komin í öruggt skjól,“ segir hann.
Flefel óttast að kynslóð Sýrlendinga sem þekkir ekki annað en stríð í heimalandinu sé að vaxa úr grasi. Átta ár eru liðin síðan stríðið þar hófst og milljónir landsmanna eru á flótta. Í Jemen hefur geisað stríð í fjögur ár og segir hann að það taki 10-20 ár að byggja upp innviði samfélags eftir eins til tveggja ára átök.
Hann hefur miklar áhyggjur af stöðu mála í Jemen og telur að ekki takist að stöðva það öðruvísi en með auknum þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu. Íbúar Jemen geti ekki flúið og margra bíða ekki annað en dauðinn. Ekki bæti úr skák að það sé nánast vonlaust að gera sér grein fyrir því hverjir eru að berjast við hverja.
Fyrir nokkrum dögum fékk Rauði krossinn á Íslandi sent myndskeið frá samstarfsfólki hjá Rauða hálfmánanum í Palestínu. Þar má sjá hermann ógna sjúkraflutningamönnum Rauða hálfmánans með riffli, taka af þeim bíllyklana, kasta þeim upp á á húdd sjúkrabílsins og ganga svo í burtu. Sjúkraflutningamennirnir voru á leið til þorpsins Beit Seera, í nágrenni Ramallah, þar sem mótmæli fóru fram föstudaginn 8. mars síðastliðinn. Að hindra för sjúkraflutningamanna er í andstöðu við alþjóðleg mannúðarlög sem gilda í vopnuðum átökum og á hernumdum svæðum og þar með á hernumdum svæðum Palestínu.
Rauði krossinn á Íslandi og Rauði hálfmáninn í Palestínu hafa saman staðið að þjálfun palestínskra sjúkraflutningamanna en landsfélögin tvö eiga það sameiginlegt að sjá um rekstur sjúkrabíla fyrir almenning.
„Aðstæður sjúkraflutninga eru mjög ólíkar í þessum tveimur löndum“, segir Guðný Nielsen, verkefnastjóri Rauða krossins á Íslandi, á vef samtakanna.
„Því miður eru atvik sem þessi algeng og það er átakanlegt að heyra sögur kollega okkar sem þurfa að sinna vinnu sinni við stöðuga spennu og mikið óöryggi. Ísraelsk yfirvöld stöðva iðulega sjúkrabílana á eftirlitsstöðvum, jafnvel þótt verið sé að flytja lífshættulega veikt og slasað fólk. Samkvæmt samstarfsfólki okkar á staðnum var för sjúkrabílsins í þessu tilfelli tafin um allt að tíu mínútur, en oft er töfin mun lengri og því miður kemur fyrir að hermenn hreinlega banna sjúkrabílum að halda för sinni áfram. Þá höfum við einnig séð hvernig hermenn hindra sjúkraflutningamenn í að komast að særðu fólki, þeim er ýtt af miklu afli og ráðist að þeim með piparúða,“ segir Guðný.
Það er gróft brot á alþjóðlegum mannúðarlögum sem ber að virða í átökum og á hernámssvæðum, þ.m.t. Genfarsamningunum fjórum frá 1949 og venjurétti, að hindra að heilbrigðisstarfsfólk geti unnið starf sitt á vettvangi. Ekki má ráðast á sjúkrabíla eða sjúkrahús eða annað húsnæði þar sem særðum er hjúkrað. Rauður kross eða rauður hálfmáni á hvítum grunni eru tákn fyrir þá vernd sem fólk, tæki og byggingar njóta sem eru til hjálpar fórnarlömbum.