Strompurinn fellur í hádegi á fimmtudag

Sementsstrompurinn á Akranesi er nálægt íbúðabyggð.
Sementsstrompurinn á Akranesi er nálægt íbúðabyggð. mbl.is/​Hari

Áætlað er að fella skorstein Sementsverksmiðjunnar á fimmtudaginn klukkan 12.15. Ef undirbúningur gengur ekki eftir eins og áætlað er verður verkefninu frestað, að því er segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

Eins og mbl.is greindi frá í desember verður strompurinn felldur í tveimur hlutum. Efri hlutinn kemur til með að falla í suðaustur en neðri hlutinn fellur í suðvestur. Neðri hlutinn verður felldur nokkrum sekúndum eftir að efri hlutinn byrjar að falla.

Rétt fyrir fellingu verður gefið hljóðmerki, sem er aðvörun um að felling verði eftir nokkrar mínútur. Þegar felling er yfirstaðin verður gefið hljóðmerki um að hún sé yfirstaðin og hætta liðin hjá. Öryggissvæði við fellingu er hringur í 160 metra fjarlægð umhverfis skorsteininn. Innan þess svæðis má engin manneskja vera óvarin.

Kortið sýnir lokun gatna fyrir fellingu og öryggissvæðið sem um …
Kortið sýnir lokun gatna fyrir fellingu og öryggissvæðið sem um ræðir. Kort/Akranesbær

Íbúar í nokkrum húsum við Suðurgötu verða beðnir um að yfirgefa húsin sín. Íbúar húsa innan öryggissvæðisins sem ekki verða beðnir um að yfirgefa hús sín verða beðnir um að vera í skjóli frá gluggum þegar felling verður.

Björgunarfélag Akraness og lögreglan á Vesturlandi munu aðstoða við lokanir og eftirlit á svæðinu. Settir verða upp mælar til að mæla titring frá fallinu. Íbúar og vegfarendur eru í tilkynningunni beðnir um að virða öryggisreglur við fellingu skorsteinsins og einnig að hafa gætur á gæludýrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert