Þörf á manneskjulegri vinnumarkaði

Frá málþingi ÖBÍ í dag um kjaramál og réttlæti þar …
Frá málþingi ÖBÍ í dag um kjaramál og réttlæti þar sem yfirskriftin var: Eru öryrkjar fólkið með breiðu bökin? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skammsýni, sem er allsráðandi í íslenskum stjórnmálum, er líklega ástæða þess að stjórnvöld skeyta jafn litlu og raun ber vitni um málefni öryrkja í samfélaginu í dag. Þetta kom fram í máli Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar Alþingis, í pallborðsumræðum á málþingi Öryrkjabandalags Íslands um kjaramál og réttlæti sem fram fór á Grand hóteli í dag.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, spurði í opnunarávarpi sínu af hverju stjórnvöld skeyti svona lítið um öryrkja og sagði Halldóra það vera skammsýni að sjá ekki þann ávinning af því að valdefla einstaklinga í samfélaginu með því að tryggja efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi. „Það er grundvöllurinn að því að bjóða upp á raunverulegt frelsi sem er andstaðan við það sem er í gangi núna, það eru allt of margir sem eru fastir í fátækragildru vegna skammsýni,“ sagði Halldóra.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis, segir það …
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar Alþingis, segir það vera skammsýni að sjá ekki þann ávinning af því að valdefla einstaklinga í samfélaginu með því að tryggja efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Klikkun að fólk er að veikjast á vinnumarkaði“

Þá segir Halldóra að samfélagið sé að fara á mis við gífurlegan mannauð. „Við ættum að vera að fjárfesta í fólki og það er klikkun að fólk er að veikjast á vinnumarkaði og svo setja stjórnvöld allt púðrið í að þrýsta fólki út á þennan sama vinnumarkað,“ sagði Halldóra og tók þannig í sama streng og Drífa Snædal, forseti ASÍ, sem tók einnig þátt í pallborðsumræðunum.

Drífa sagði meðal annars að það væri sérstakt áhyggjuefni hversu harður vinnumarkaðurinn hefur orðið á undanförnum árum. Vinnumarkaðurinn hefur krafist meiri tíma og orku heldur en fólk með góðu móti hefur getað gefið. Það hefur verið gengið mjög hart að mjög mörgum einstaklingum og fólk hefur ekki fengið greitt fyrir þessa hörku og þá blóðtöku sem vinnumarkaðurinn hefur sýnt og það hefur orðið til þess að fólk veikist, fólk veikist ef það þarf að hafa miklar áhyggjur og leggja mjög hart að sér á vinnumarkaði þannig að við erum í ákveðnum vítahring,“ sagði Drífa. Hún sagði úrræði líkt og VIRK vera af hinu góða en að í samfélaginu viðgengist grundvallarranglæti þegar fólk veikist vegna stöðunnar á vinnumarkaði og er svo endursent út á þann sama vinnumarkað. Þá byrjar ballið aftur.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, og Indriði Þorláksson, hagfræðingur og …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, og Indriði Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri, fluttu ávörp og erindi á málþinginu í dag og tóku auk þess þátt í pallborðsumræðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinnuvikan verði stytt sem fyrst

Drífa og Halldóra eru sammála um að til að stemma stigu við mikilli vinnu þurfi að stytta vinnuvikuna hið snarasta. „Forsenda fyrir því er að fólk geti fengið grunnlaun sem það getur lifað af,“ sagði Drífa og bætti við að eitt af stærstu verkefnum verkalýðshreyfingarinnar þessa stundina sé að stuðla að manneskjulegri vinnumarkaði. Í því felst líka að gefa fólki tækifæri sem er ekki með nógu góða starfsorku til þess að taka þátt í vinnumarkaðnum,“ bætti Drífa við og sagði það ekkert launungarmál að í þeirri umræði um starfsgetumat öryrkja sem nú stendur yfir þurfi að gera væntingar til þess að til séu störf sem fólk getur unnið 10, 20 eða 30 prósent. En íslenskur vinnumarkaður byggir ekki á þannig störfum í dag, bara alls ekki.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir það áhyggjuefni hversu harður vinnumarkaðurinn …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir það áhyggjuefni hversu harður vinnumarkaðurinn hefur orðið á undanförnum árum. mbl.is/​Hari

Drífa sagði að lokum að í yfirstandandi kjaraviðræðum snúist kröfur verkalýðshreyfingarinnar gagnvart stjórnvöldum um kröfur um jöfnuð. „Við erum komin að þanþoli í misskiptingu og það er okkar stóra verkefni í stóra samhenginu að gera þeim sem hafa möguleika á að breyta samfélaginu til betri vegar grein fyrir því hversu mikið er í húfi og að lykillinn að framtíðinni er aukinn jöfnuður, jafnrétti og sanngirni.“

Frá pallborðsumræðum á málþingi ÖBÍ í dag þar sem Brynhildur …
Frá pallborðsumræðum á málþingi ÖBÍ í dag þar sem Brynhildur Flóvenz, dósent hjá lagadeild HÍ, Indriði Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ tóku til máls. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert