Þrír handteknir við Alþingishúsið

Frá mótmælunum við Alþingishúsið. Þingfundur er nú hafinn.
Frá mótmælunum við Alþingishúsið. Þingfundur er nú hafinn. mbl.is/Eggert

„Okkur barst tilkynning frá Alþingi um að það væru á milli 20 og 30 aðilar sem lokuðu fyrir alla innganga við Alþingishúsið. Lögregla fór á vettvang og gaf fólki fyrirmæli um að færa sig frá inngöngunum,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Þau gætu að sjálfsögðu mótmælt en gætu ekki hindrað aðgang.“

Atvikið átti sér stað við upphaf þingfundar kl. 13:30 og um var að ræða mótmælendur frá samtökunum No Borders.

Frá mótmælaaðgerðunum fyrir utan Alþingi.
Frá mótmælaaðgerðunum fyrir utan Alþingi. mbl.is/Eggert

Ásgeir Þór segir að þrátt fyrir ítrekuð tilmæli lögreglu um að færa sig hafi þrír aðilar ekki gert það eða fært sig strax aftur á sama stað og þar af leiðandi verið handteknir. Hann gerir ekki ráð fyrir að þeim verði haldið lengi.

„Allir aðrir hlýddu fyrirmælum að endingu. Eins og staðan er núna er þessari mótmælaaðgerð lokið og starfsemi þingsins komin í eðlilegt horf,“ segir Ásgeir Þór. Lögreglan hafi þó áfram eftirlit með Alþingi eins og gengur og gerist.

Á bilinu tíu til 15 lögregluþjónar tóku þátt í aðgerðinni og beittu skipunum og lögreglutökum.

Uppfært kl. 14.59:

Hópur mótmælenda safnaðist saman fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu að loknum mótmælunum við Alþingishúsið og náði ljósmyndari meðfylgjandi mynd af þeim. 

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert