Hjartaaðgerð sem Rósa Poulsen, bóndi í Biskupstungum, þarf að gangast undir á Landspítalanum hefur verið frestað þrisvar á rúmum mánuði.
Fyrst var skurðlæknirinn veikur, í annað skipti þurfti hann að gera stóra aðgerð til að bjarga sjúklingi sem var í lífsháska og í þriðja skiptið var ekkert pláss á gjörgæsludeildinni og aðgerðir felldar niður. Rósa segir að þetta hafi tekið á sig ekki síður en starfsfólk spítalans sem hefur ítrekað þurft að snúa henni við eða senda hana heim.
Hún er með meðfæddan hjartagalla. Hann uppgötvaðist í kjölfar þess að hún fékk lungnabólgu fyrir tveimur árum. Hún hafði verið með háþrýsting í lungum og fjölskyldusögu um hjartatengda sjúkdóma. Rósa varð að hætta að vinna enda með talsvert mikið skert andrými. Hún var send í hjartaþræðingu og þá sást að það var opið á milli hjartahólfa.
„Það var einstök heppni að þetta fannst. Það þarf að loka gatinu og vegna þess hvað það er stórt er ekki hægt að gera það í gegnum æð. Svo þarf að hnika til lungnaæð. Ég er því að bíða eftir opinni hjartaaðgerð,“ segir Rósa meðal annars í umfjöllun um mál hennar í Morgunblaðinu í dag.