Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem kveður á um lagaheimild til að stofna og reka neyslurými hefur verið lagt fram á Alþingi.
Markmiðið með rekstri neyslurýma er að draga úr skaðlegum afleiðingum af notkun ávana- og fíkniefna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Greint var frá því í janúar síðastliðnum að heilbrigðisráðherra hefði sett af stað vinnu til að undirbúa opnun neyslurýma fyrir langt leidda vímuefnaneytendur.
Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni sem gerir embætti landlæknis kleift að heimila sveitarfélagi að stofna og reka neyslurými að uppfylltum nánari skilyrðum sem heilbrigðisráðherra setur um rekstur þeirra, þar á meðal um þjónustu, hollustuhætti, hæfni starfsfólks og upplýsingagjöf.
Neyslurými er skilgreint í frumvarpinu sem „lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.“
Undirbúningur að opnun neyslurýmis í Reykjavík hefur staðið yfir um skeið. Fyrir liggur að velferðarsvið Reykjavíkurborgar muni taka þátt í verkefninu og í fjárlögum þessa árs eru 50 milljónir króna ætlaðar til þessa málefnis.