Úthlutað hefur verið hálfri milljón króna til íþróttafélagsins Völsungs á Húsavík vegna fyrstu alvörustrandblakvallanna þar í bæ.
Áður hafði verið notast við náttúrulegan strandblakvöll í fjöru í bænum en nýju vellirnir tveir eru með innfluttum sandi sem var fluttur til bæjarins með gámum.
Að sögn Kjartans Páls Þórarinssonar, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Norðurþings, voru vellirnir settir upp við safnahúsið á Húsavík í fyrra. Þá var lokið við að leggja jarðveginn og net keypt.
Kostnaðurinn við hvorn völlinn fyrir sig hleypur á nokkrum milljónum að sögn Kjartans Páls. Mikill vöxtur hefur verið í blakinu í bænum undanfarin fimm ár og tengjast vellirnir tveir þeim uppgangi. Strandblaksnámskeið verður til að mynda haldið í maí.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið tilkynnti um úthlutunina í gær. Styrkjunum var veitt til verkefna sem stuðla að faglegri uppbyggingu á sviði menningarmála.
Skotfélag Húsavíkur hlaut einnig styrk upp á 1,5 milljónir króna til uppbyggingar á félagsaðstöðu. Kjartan Páll segir að aðstaða félagsins sé orðin barn síns tíma og að hana þurfi að endurnýja. Viðræður standa yfir við sveitarfélagið um að fá aukið fé til verkefnisins.