Styrkur til strandblaks á Húsavík

Annar af strandblakvöllunum tveimur á Húsavík.
Annar af strandblakvöllunum tveimur á Húsavík. Ljósmynd/Aðsend

Úthlutað hefur verið hálfri milljón króna til íþróttafélagsins Völsungs á Húsavík vegna fyrstu alvörustrandblakvallanna þar í bæ.

Áður hafði verið notast við náttúrulegan strandblakvöll í fjöru í bænum en nýju vellirnir tveir eru með innfluttum sandi sem var fluttur til bæjarins með gámum.

Að sögn Kjartans Páls Þórarinssonar, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Norðurþings, voru vellirnir settir upp við safnahúsið á Húsavík í fyrra. Þá var lokið við að leggja jarðveginn og net keypt.

Kostnaðurinn við hvorn völlinn fyrir sig hleypur á nokkrum milljónum að sögn Kjartans Páls. Mikill vöxtur hefur verið í blakinu í bænum undanfarin fimm ár og tengjast vellirnir tveir þeim uppgangi. Strandblaksnámskeið verður til að mynda haldið í maí.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið tilkynnti um úthlutunina í gær. Styrkjunum var veitt til verkefna sem stuðla að faglegri uppbyggingu á sviði menningarmála.

Rauður hringur er utan um svæði Skotfélags Húsavíkur.
Rauður hringur er utan um svæði Skotfélags Húsavíkur. Kort/Map.is

Skotfélag Húsavíkur hlaut einnig styrk upp á 1,5 milljónir króna til uppbyggingar á félagsaðstöðu. Kjartan Páll segir að aðstaða félagsins sé orðin barn síns tíma og að hana þurfi að endurnýja. Viðræður standa yfir við sveitarfélagið um að fá aukið fé til verkefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert