Leikskólinn Vinagarður, sem KFUM og KFUK reka í Reykjavík, varð í síðustu viku einum starfsmanni fátækari. Sá var sýrlensk kona á flótta sem hefur nú verið vísað frá Íslandi og til Grikklands þar sem hún hafði þegar hlotið alþjóðlega vernd. Á flóttanum og í Grikklandi hafði hún lent í miklum hremmingum og verið hótað lífláti. Auk þess óttaðist hún ofsóknir öfgahópa því hún hafði sagt skilið við íslam og tekið kristna trú. Eftir að hafa komist í samband við kristin samtök í Grikklandi ákvað hún að halda flóttanum áfram og freista þess að fá hæli hér á landi.
Íslensk yfirvöld höfnuðu því hins vegar að taka mál hennar til efnismeðferðar þar sem þau álíta Grikkland öruggt ríki fyrir flóttamenn. Á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar var henni því vísað þangað aftur.
„Gefinn hefur verið út mikill fjöldi skýrslna sem sýnir að staða flóttafólks er allt annað en góð í Grikklandi,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður konunnar. „Út frá þeim má segja að það sé mjög hæpið, hreinlega galið, að skilgreina Grikkland sem öruggt land fyrir hælisleitendur.“
Hún kallar sig Sophiu þar sem hún telur ekki óhætt að gefa opinberlega upp sitt rétta nafn af ótta við ofsóknir. Hún er ekkja og móðir fimm barna. Eiginmanninn missti hún í stríðinu fyrir nokkrum árum. Hún varð viðskila við börnin í Sýrlandi þar sem þau dvelja enn. Nú eru liðin meira en þrjú ár síðan hún sá þau síðast.
Sophia kom til Íslands fyrir tæpu ári og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd nokkrum vikum síðar. Í haust lá niðurstaða Útlendingastofnunar fyrir: Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar heldur skyldi vísa henni frá landinu. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar útlendingamála sem komst að sömu niðurstöðu.
Í desember sótti lögmaður hennar um frestun réttaráhrifa og krafðist auk þess endurupptöku málsins vegna nýrra gagna sem sýndu fram á að hún yrði í hættu í Grikklandi. Meðal gagnanna voru vitnisburðir fólks sem þekktu vel aðstæður hennar þar í landi og hvað hún mátti þola.
Báðum þessum kröfum var hafnað.
„Hún er yndisleg á allan hátt, semur vel við alla, börn og fullorðna,“ segir Margrét Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur sem skaut skjólshúsi yfir Sophiu á meðan hún dvaldi og starfaði hér á landi. „Hún er sérstaklega djörf, gjafmild og vinnusöm,“ heldur Margrét áfram. „Hún er dugmikill leiðtogi sem tekst að hrífa fólk með sér til góðra verka, er ósérhlífin baráttukona og okkur öllum mikil fyrirmynd. Hún kunni vel við sig hér, var í vinnu og greiddi sína skatta til samfélagsins. Hverja krónu sem hún vann sér inn sendi hún til fjölskyldu sinnar í Sýrlandi. Öllum, sem hittu hana, fór að þykja vænt um hana. Það var henni mjög erfitt og mikið áfall að vera vísað úr landi. Mikil sorg.“
Þær kynntust í gegnum Kristniboðssambandið, landssamtök kristniboðshópa, félaga og einstaklinga sem vinna að kristniboði og hjálparstarfi meðal annarra þjóða. Margrét tekur þátt í starfi sambandsins og fékk símtal í fyrra vegna komu Sophiu og bauð henni að gista í íbúð sinni um hríð. Málin þróuðust hins vegar þannig að hún dvaldi hjá Margréti og eiginmanni hennar allt þar til henni var vísað frá landinu á dögunum.
Sophia kynnti sér starfið á leikskólanum Vinagarði síðasta vor og kom í kjölfarið til fullra starfa við leikskólann í september. Ekkert var því þá til fyrirstöðu, hún var komin með bráðabirgðaatvinnuleyfi.
Hún vann því á leikskólanum í rúmlega hálft ár og stóð sig með mikilli prýði að sögn Maríu Sighvatsdóttur aðstoðarleikskólastjóra. Hún náði vel til barnanna. „Hún hefur ofboðslega góða nærveru, er áhugasöm og lagði sig mikið fram við að kynnast starfinu. Það var gott að vinna með henni, ég lærði mjög margt af henni. Hún kenndi börnunum og lærði svo af okkur og þeim líka. Þannig að allir græddu á vinnu hennar hér. Hennar er virkilega sárt saknað.“
Er Sophia hafði fengið endanlega niðurstöðu í sín mál hjá íslenskum yfirvöldum og ljóst að hún yrði send úr landi mætti hún á leikskólann og kvaddi starfsfólkið og börnin. „Það var erfitt,“ segir María. Börnin hafi eflaust fæst gert sér grein fyrir því hvers vegna hún væri að fara og hvert hún þyrfti að fara. „Þegar hún kom var hún með tárin í augunum en sagði: „Ég ætla að reyna að halda andlitinu því ég vil ekki gráta fyrir framan börnin,“,“ hefur María eftir henni. „Börnin kvöddu hana öll, hvert og eitt einasta, með því að taka utan um hálsinn á henni.“
María segir að starfsmennirnir hafi líka átt erfitt með að halda aftur af tárunum. Þeir hafi verið að sjá á bak mjög góðri samstarfskonu. „Við söknum hennar og þurftum virkilega á henni að halda. Hún auðgaði starfið hér. Hún var snillingur í höndunum og sinnti öllum verkum vel. Við allar sem hér vinnum eru þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast henni og fengið að njóta hennar starfskrafta.“
En hverjar eru skýringarnar á því að sýrlenskum flóttamanni sem kominn var með vinnu hér á landi og húsaskjól var vísað á brott?
Í niðurstöðu íslenskra yfirvalda segir að þar sem Sophia hafi þegar fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi og hún að þeirra mati ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, yrði mál hennar ekki tekið til efnismeðferðar. Það þýðir að erfiðar aðstæður hennar í heimalandinu Sýrlandi voru aldrei metnar. Hins vegar voru aðstæður hennar í Grikklandi til umfjöllunar í úrskurðum yfirvalda og þeim lýsti Sophia í stuttu máli á þessa leið:
Eftir flóttann frá Sýrlandi dvaldi hún fyrst í stað í flóttamannabúðum í Grikklandi. Þar segist hún aldrei hafa verið örugg. Hún hafi svo um tíma neyðst til að dvelja á götunni í Aþenu eða þar til hún fékk vinnu á afskekktum stað. Þar þurfti hún að vinna myrkranna á milli, jafnvel 18-20 tíma á dag, án þess að fá í fyrstu greidd laun. Hún hafi þurft að vinna alla daga og stundum verið vakin á nóttunni til að vinna.
Við þessar aðstæður starfaði hún í eitt og hálft ár eða þar til hún komst í samband við fólk sem þekkti Íslendinga og þannig atvikaðist það að hún ákvað að halda flótta sínum áfram – alla leið til Íslands.
Sophia greindi íslenskum yfirvöldum einnig frá því að hún þorði ekki að nota sitt rétta nafn opinberlega. Skýringin væri sú að hún hefði snúist til kristinnar trúar og stafi því mikil hætta af öfgahópum. Óttaðist hún um líf sitt, yrði hún send aftur til Grikklands, af þessum sökum.
Sophia taldi sig því í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Grikklandi. Þar væri litla aðstoð og vernd að hafa, það hafði hún þegar reynt á eigin skinni, og var það mat hennar að íslensk stjórnvöld gætu ekki skýlt sér á bak við það að formlega teljist grísk stjórnvöld uppfylla allar lagalegar skyldur sem á þau eru lögð við móttöku flóttafólks.
Samkvæmt útlendingalögum er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið „virka alþjóðlega vernd í öðru ríki“ eins og það er orðað í a-lið 1. mgr. 36. gr. laganna. Í lögunum er einnig að finna heimild til að taka mál til efnismeðferðar af sérstökum ástæðum, m.a. ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki og ef hann glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er við hér á landi en ekki í viðtökuríkinu.
Stjórnvöldum ber að leggja sjálfstætt mat á aðstæður í viðtökuríkinu og í greiningu íslenskra yfirvalda á því hvort Sophia væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu kom m.a. fram að skimunarpróf benti til þess að hún væri haldin áfallastreituröskun og í áliti sálfræðings sagði að hún glímdi við mikinn og alvarlegan andlegan vanda.
Í mati kærunefndar útlendingamála á aðstæðum sem bíða flóttafólks almennt í Grikklandi er tekið fram að grísk stjórnvöld hafi verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar hælisleitenda, m.a. af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ljóst sé að þeir sem fái svo hæli í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Þeir eigi hins vegar rétt á félagslegri aðstoð, m.a. endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu. Bág fjárhagsstaða gríska ríkisins hafi haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu, þá sérstaklega sérhæfða þjónustu.
Einnig er rakið að fá gistiskýli séu í boði fyrir heimilislausa í Grikklandi og ekkert húsnæði til staðar sem einungis er ætlað fólki með alþjóðlega vernd. Eru því dæmi um að slíkir einstaklingar hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Fjallað er um að í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins komi fram að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi, m.a. af hendi grísku lögreglunnar. Af þessari skýrslu verði ráðið að ýmsir annmarkar séu á dómskerfi landsins.
Niðurstaða kærunefndar útlendingamála var sú að synjun á efnismeðferð umsóknar Sophiu leiddi ekki til brots á lögum um útlendinga eða mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem hún njóti þegar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi telur nefndin tryggt að hún verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf hennar eða frelsi kunni að vera í hættu.
Hvað einstaklingsbundnar aðstæður Sophiu varðar er það mat nefndarinnar að hún muni ekki eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar. Er í því sambandi m.a. bent á að grísk stjórnvöld hafi gripið til aðgerða til að stemma stigu við fordómum í landinu. Ráða megi af gögnunum að óttist Sophia um öryggi sitt geti hún leitað til lögreglu eða annarra stjórnvalda þar í landi. Að lokum er það einnig mat nefndarinnar að Sophia glími ekki við mikil og alvarleg veikindi sem hún geti ekki fengið meðferð við í Grikklandi. „Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar veðri tekið til efnismeðferðar hér á landi [...],“ segir í niðurstöðunni.
Margrét, sem leyfði Sophiu að dvelja á heimili sínu meðan hún var á Íslandi, hefur verið í sambandi við hana eftir að hún kom aftur til Grikklands. „Hún fékk athvarf hjá vinafólki svo hún er ekki á götunni í augnablikinu,“ segir Margrét. „En hún er í lausu lofti, veit ekki hvað tekur við. Vandi hennar núna er að hún sér enga leið til að afla sér tekna í Grikklandi til að sjá fyrir fólki sínu í Sýrlandi. Hún er aftur komin á byrjunarreit með stöðugum áhyggjum og öryggisleysi. Í Grikklandi hefur hún heldur enga von um að geta séð börnin sín aftur. Heim til Sýrlands kemst hún ekki vegabréfslaus. Henni finnst erfitt að vera algjörlega upp á aðra komin um nauðsynjar og húsaskjól og fær enga aðstoð frá grískum yfirvöldum. Hún þarf því að taka einn dag í einu.“
Margrét segir Sophiu ekki hafa gefið upp alla von um að fá að búa og starfa á Íslandi. Hún ætli sér, með aðstoð íslenskra vina sinna, að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi en á öðrum forsendum en áður. Hún vonar að öll nótt sé ekki úti enn.