„Ég taldi mig vera kominn með góðan grunn til þess að klára kjarasamning,“ segir Guðbrandur Einarsson, fyrrverandi formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna (LÍV), í samtali við mbl.is en hann sagði af sér sem formaður í morgun.
Guðbrandur hafði áður en hann sagði formlega af sér á fundi hjá LÍV setið viðræðufund í kjaradeilu sambandsins við Samtök atvinnulífsins (SA) í húsakynnum ríkissáttasemjara. Var fundurinn bókaður sem árangurslaus að frumkvæði fulltrúa LÍV, en Guðbrandur segir að ástæðan hafi verið sú að hann hefði ekki talið sig lengur hafa umboð til þess að ganga frá kjarasamningi á þeim forsendum sem hann hefði talið rétt að gera.
Guðbrandur sendi frá sér tilkynningu í morgun um að hann hefði í hyggju að segja af sér sem formaður LÍV, en hann hefur verið formaður í sex ár og setið í stjórn sambandsins í rúma tvo áratugi. Sagði hann í tilkynningunni að ástæðan væri verulegur meiningarmunur á milli hans og forystu VR um það hvernig nálgast ætti kjarasamningsgerð.
„Það var ekki langt í land,“ segir Guðbrandur spurður hver staðan í viðræðunum hafi verið. „Við sem þarna sátum við borðið vorum orðin nokkuð fullviss um það að það sem lagt hafði verið fram gæti orðið fínn grundvöllur undir kjarasamning fyrir verslunarmenn. En því miður var þetta stoppað og þá sé ég engan ástæðu til að sitja lengur.“
Spurður almennt um stöðuna í kjaraviðræðum þar sem hefðbundnum leikreglum virðist í ýmsum tilfellum hafa verið varpað út um gluggann segir Guðbrandur að hann sé farinn að hallast að því að átök séu fremur markmiðið en gerð kjarasamninga. Það sé eitthvað sem hann sé ekki reiðubúinn að taka þátt í og því rétt að snúa sér að öðru.