Allir þeir sem sinna starfi sem heyrir undir kjarasamning Eflingar og verkfallsboðun félagsins nær til, verða að leggja niður störf á morgun hvort sem þeir eru í öðrum félögum eða utan stéttarfélaga, segir Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, í samtali við mbl.is.
Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sagt verkföll Eflingar aðeins ná til félagsmanna stéttarfélagsins. Segja samtökin það liggja fyrir að fullyrðingar um að verkföll nái til þeirra sem ekki hafa aðild að félagi sem hefur boðað verkfall, eigi enga stoð.
Þetta mat SA gildir þó aðeins ef viðkomandi einstaklingur sé félagi í öðru stéttarfélagi sem semur við viðeigandi vinnuveitenda um laun og starfsskyldur hans, að sögn Láru.
„Ef hópbifreiðastjóri er ekki í félagi sem hefur boðað verkfall – þeir geta verið í stéttarfélagi í Keflavík, Grindavík eða félaginu fyrir austan – ef þessi félög hafa ekki boðað verkföll og þau semja fyrir hópbifreiðastjóra, þá geta þeir keyrt áfram. Ef þeir eru hins vegar ekki í öðru félagi og vinna á grundvelli Eflingar-samningsins, eiga þeir að leggja niður störf,“ útskýrir hún.
Lára segir þetta byggja á túlkun á ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur eins og þau hafa verið framkvæmd frá setningu laganna 1938. „Hins vegar er greinin ekki sjálf alveg skýr, en þetta byggir á dómaframkvæmd.“