„Er hæstvirtur ráðherra með öðrum orðum að segja að forsendur fjármálaáætlunar frá í fyrra hafi staðist? Hann er þá væntanlega einn um það,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis í dag. Hafði hann leitað skýringa Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á hagræðingarkröfu á tíma sem Logi sagði breyttar aðstæður vera í hagkerfinu.
Í fyrirspurn sinni gagnrýndi hann forsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. „Forsendurnar byggðu á 13 ára samfelldu hagvaxtarskeiði, krónan yrði stöðug í fimm ár og það var gert ráð fyrir talsverðri ró á vinnumarkaði. Finnst hæstvirtum ráðherra eitthvað af þessu hafa gengið eftir?“ spurði hann og gagnrýndi aðhaldskröfu ríkisstjórnarinnar upp á átta milljarða króna.
Þá spurði hann einnig hvort ekki væri skynsamlegra í stöðunni að „verja velferðina og afla tekna í stað þess að þrengja að sveitarfélögum og skerða þjónustu“.
„Þarna er Samfylkingin lík sjálfri sér,“ svaraði Bjarni og sagði ljóst að stefna Samfylkingarinnar væri að hækka skatta. „Við erum reyndar með upplegg um það að lækka skatta og við erum að fá þau skilaboð frá vinnumarkaðnum að það mætti lækka skatta meira.“
Fjármálaráðherra vísaði til þess að hagvöxtur 2018 hafi verið meiri en spáð var og að „hagvöxtur 2019 er ekki sá sami og við höfum áður séð, en hann er samt töluverður. Ég hef verið að tiltaka nokkur hættumerki í hagkerfinu sem geta breytt þessari stöðu, en eftir sem áður erum við að ná öllum okkar markmiðum.“
Þá benti hann á að tekjuafgangur hafi verið meiri árið 2018 en gert var ráð fyrir í fjárlögum og að aðhald í ríkisfjármálum hefði skilað lægri verðbólgu yfir lengri tíma.