Minni tekjur hefðu áhrif á uppbyggingu

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, ávarpar aðalfund félagsins í dag.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, ávarpar aðalfund félagsins í dag. mbl.is/​Hari

„Til að mögulegt sé að halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli til þess að uppfylla þjónustumarkmið miðað við núverandi fjölda farþega og til að byggja upp til framtíðar er mikilvægt að núverandi nýting á innviðum Keflavíkurflugvallar minnki ekki.“

Þetta sagði Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, meðal annars í ræðu sinni á aðalfundi félagsins sem fram fór á Hótel Natura í Reykjavík í dag. Sagði hann leiðakerfi Icelandair og WOW air byggja á því að ná fullri nýtingu á afkastagetu innviða Keflavíkurflugvallar yfir stuttan tíma dagsins í einu.

„Ef til þess kæmi að við myndum missa frá okkur hluta þeirra tekna þá myndi það hafa áhrif á getu okkar til frekari uppbyggingar og kæmi niður á notendum flugvallarins. Öllum sem þar koma. Það er því öllum hollt og nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina í þessum málum.“

Björn segir í samtali við mbl.is að ljóst sé að fara þurfi í ákveðna stækkun á Keflavíkurflugvelli óháð þessu vegna þess að þörf sé einfaldlega á meira plássi eins og staðan er í dag. Bæði þurfi farþegar meira pláss og þess sé einnig þörf vegna skuldbindinga vegna Schengen-samstarfsins.

„Við megum þannig einfaldlega ekki stoppa bara út af þessum tveimur ástæðum, segir Björn Óli. Verði ekki farið í þessar umræddu framkvæmdir verði einfaldlega ekki líft í flugstöðinni eftir fimm ár. „Við veðum að hefja þessar byggingaframkvæmdir eigi síðar en vorið 2020.“

Frá aðalfundi Isavia í dag.
Frá aðalfundi Isavia í dag. mbl.is/​Hari

Síðan sé það annar hluti framkvæmdanna sem sé ný viðbygging og norðurbygging og fleira. „Það verður tekin ákvörðun um það þegar við sjáum hvernig staðan verður 2021-2. Sú ákvörðun byggir á því hvort flugfélögin hafa náð sér aftur á flug og hvort fjöldi farþega sé þá farinn að vaxa aftur.“

Þannig sé ekki hægt að fara upp í mikið meira en um 11 milljónir farþega á Keflavíkurflugvelli til þess að farþegum líði vel. „Ef við ætlum að taka við fleiri farþegum þá verðum við að hefja byggingarframkvæmdir, búa til fleiri rana, bjóða upp á betri þjónustu sem í dag er ótrúlega vel metin af farþegum en er í raun ekki sú þjónusta sem við hefðum viljað bjóða upp á hérna hjá okkur.“

Björn Óli segir að það sem Isavia hafi ákveðið að gera sé að halda hönnunarferlinu áfram sem sé í fullum gangi. Þó að einhverjar sveiflur komi sé hönnunarferlið enn í gangi. Þurfi að seinka framkvæmdum eða hrinda þeim í framkvæmd í smærri skrefum sé hönnunin alla vega til.

„Við hefðum viljað byrja að byggja í vor en vegna þess að hönnunin var ekki búin þá seinkaði þessu um næstum því ár,“ segir Björn Óli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert