Segir ÖBÍ hafna afnámi skerðingar

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir liggja fyrir að ÖBÍ …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir liggja fyrir að ÖBÍ hafi hafnað króna á móti krónu skerðingu. mbl.is/Hari

„Unnið hefur verið sleitulaust að því að fá niðurstöðu, en þeirri niðurstöðu er hafnað af Öryrkjabandalaginu. Í þeirri lausn sem er á borðinu er verið að afnema krónu á móti krónu skerðingu, en því er hafnað,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag.

Tilefnið var fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins, er sneri að orðum fjármálaráðherra sem féllu við afgreiðslu fjárlaga í fyrra þar sem hann hafi sagt enga skerðingu vera í almannatryggingakerfinu, heldur að beðið væri eftir innleiðingu breytinga á kerfinu sem myndi koma til eftir fyrsta ársfjórðung 2019.

Snýr deilan að því að við aðra umræðu um fjárlög í nóvember var lækkuð upphæð sem ætluð var öryrkjum, en upphaflega var gert ráð fyrir fjórum milljörðum meira í þann málaflokk.

Sagði Bjarni að vonir hefðu verið bundnar við að ná að innleiða nýtt kerfi 1. apríl. „Því miður er staðan sú – og lesum við um það í blöðunum – að sú lausn sem hefur verið í smíðum í mörg ár […] þeirri niðurstöðu er hafnað af Öryrkjabandalaginu.“

Guðmundur Ingi sagðist skilja af hverju Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) hafi ekki skrifað undir breytt fyrirkomulag, þar sem hann sagði öryrkja undir hótunum stjórnvalda þegar þau krefjast starfsgetumats gegn því að króna á móti krónu skerðing verði afnumin.

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Skjáskot

ÖBÍ segist ekki skrifa undir

Fram kemur á vef ÖBÍ að formaður félagsins hafi tekið virkan þátt í samráðshópi ríkisstjórnarinnar um breytt framfærslukerfi almannatrygginga og að lokadrög hópsins liggi fyrir.

Mat bandalagsins er að mannsæmandi afkoma sé ekki tryggð með drögunum og að króna á móti krónu skerðing verði aðeins afnumin gegn skilyrðum. Þá segir ÖBÍ að óskýrt sé hvernig samspil lífeyriskerfis og almannatrygginga skuli vera og hvernig vinnumarkaðsmálum skuli háttað.

Á þessum grundvelli hefur ÖBÍ ákveðið að skrifa ekki undir skýrslu starfshópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert