„Allir í minnihluta studdu þetta, en með því að vísa þessari tillögu frá finnst mér borgarmeirihluti ekki skilja mikilvægi þess að börn sem þurfa á talmeinaþjónustu að halda fái áframhaldandi þjónustu í grunnskóla,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Vísar Kolbrún í máli sínu til tillögu sem hún lagði fyrir á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur á þriðjudag þess efnis að auka talmeinaþjónustu í grunnskólum borgarinnar. Kolbrún segir góðan málþroska vera undirstöðu bóklegs náms og áhrifavald þegar kemur að tjáningu og almennum félagslegum samskiptum.
„Undanfarin ár hefur fjölgað tilvísunum til talmeinafræðinga og til sérfræðiteyma þjónustumiðstöðvanna. Talið er að um 10% barna á hverjum tíma þurfi aðkomu talmeinafræðings vegna vægari eða alvarlegri vanda,“ segir í tillögunni en um mál þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag.