Félagsbústaðir hyggst á næstunni standa að útgáfu samfélagsskuldabréfa til þess að fjármagna viðhald, kaup og byggingu leiguhúsnæðis, að því er segir í fréttatilkynningu Félagsbústaða. Er útgáfan sögð tengjast markmiði félagsins um að fjölga íbúðum þess um að minnsta kosti 550 til ársins 2022.
Fram kemur í tilkynningunni að samfélagsskuldabréf séu sérstök skuldabréf sem hafa það að markmiði að fjármagna verkefni sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið og að einn helsti hvati útgáfu slíkra bréfa sé „vaxandi krafa fjárfesta um samfélagslega ábyrga fjárfestingakosti.“
Rammi útgáfunnar byggir á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) um samfélagsleg skuldabréf og hefur rammi félagsbústaða hlotið vottun Sustainalytics.
Verðbréfafyrirtækið Fossar ehf. mun sjá um útgáfu skuldabréfanna fyrir hönd Félagsbústaða. Þá mun fyrirtækið kynna bréfin fyrir fjárfestum á næstu vikum.