Alls er nú 21 nemandi skráður í Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hófst fyrir skömmu, en um er að ræða árlegt sex mánaða námskeið. Aldrei fyrr hafa jafn margir nemendur verið skráðir á námskeiðið.
„Við erum að hefja núna árlegt sex mánaða nám í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu og erum við núna í ár með okkar stærsta hóp til þessa,“ segir Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, í samtali við Morgunblaðið og bætir við að hópurinn sé frá alls tíu ríkjum í Afríku og Mið-Asíu.
Er um að ræða nemendur frá Gana, Níger, Eþíópíu, Malaví, Úganda, Lesótó, Mongólíu, Kirgistan, Tadsikistan og Úsbekistan, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Aðspurð segir Hafdís Hanna að öll þessi ríki hafi sent nemendur hingað til lands áður, en þetta sé þó í annað skipti sem nemandi frá Tadsikistan sækir Ísland heim í þessum tilgangi.