„Við munum halda áfram að berjast“

Fulltrúar réttindaráðs Hagaskóla. Zainab Safari er önnur til vinstri á …
Fulltrúar réttindaráðs Hagaskóla. Zainab Safari er önnur til vinstri á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við mótmælum því að skólasystir okkar Zainab Safari verði send úr landi. Hér eru tæplega 600 undirskriftir sem eru aðallega nemendur í skólanum og hér eru um 6.200 rafrænar undirskriftir frá fólki sem er að mótmæla þessu með okkur, “ sagði Svava Þóra Árnadóttir formaður réttindaráðs Hagaskóla við afhendingu undirskriftarlista þar sem brottvísun skólasystur nemenda úr Hagaskóla er mótmælt. 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður kærunefndar útlendingamála, tók við undirskriftarlistunum tveimur. Hann sagðist ekki getað tjáð sig um einstök mál en sagði gott að sjá samstöðu nemendanna. 

„Þetta er rosalegt að finna þessa samstöðu og kraftinn. Alveg gæsahúð. Við munum halda áfram að berjast alveg þar til eitthvað verður gert,“ segir Svava Þóra við mbl.is. Þegar fulltrúar réttindaráðsins gengu út úr byggingunni eftir afhendinguna var þeim klappað lof í lófa. Þeir létu ekki staðar numið þarna heldur héldu áfram yfir í dómsmálaráðuneyti þar sem þau afhentu einnig undirskriftarlista. 

Nemendur mótmæltu fyrirhugaðri brottvísun skólasystur sinnar úr landi.
Nemendur mótmæltu fyrirhugaðri brottvísun skólasystur sinnar úr landi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vona að þau eigi erindi sem erfiði“

Í mótmælunum voru einnig nokkrir foreldrar sem fylgdust með. 

„Þetta er alveg frábært hjá þeim. Þau læra svo mikið á þessu. Ég vona að þau eigi erindi sem erfiði því þetta er mjög mikilvægt mál,“ segir Helga Rakel Rafnsdóttir foreldri barns í Hagaskóla. 

„Við verðum að vera það,“ segir María Rán Guðjónsdóttir, foreldri barns í Hagaskóla, spurð hvort þau séu vongóð um að Zainab og fjölskylda fái landvistarleyfi. Í því samhengi benda þær á að það séu fordæmi um sambærilegt mál fjölskyldu sem er búsett í Vesturbænum og hafi fengið landvistarleyfi eftir þrýsting frá nærsamfélaginu.

Þær benda báðar á að samstaða ríki í samfélaginu og fólk vilji taka vel á móti flóttafólki og veita því hjálparhönd. Þetta framtak er skýrt dæmi um það.

Mótmælendur úr Hagaskóla.
Mótmælendur úr Hagaskóla. mbl.is/Árni Sæberg

 

Réttindaráð Hagaskóla hefur staðið fyrir söfnun undirskrifta frá því um miðjan mánuðinn til að mótmæla fyrirhugaðri brottvísun Zainab. 

„Zainab Safari er 14 ára nemandi í Hagaskóla sem hefur þurft að ganga í gegnum hluti sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Hún finnur til öryggis á Íslandi, er í góðum bekk í Hagaskóla og líður vel með nemendum og starfsmönnum sem styðja við bak hennar.“ Þetta kemur meðal annars fram í ályktun sem réttindaráðið sendi frá sér nýverið.

Nemendur í Hagaskóla létu vel í sér heyra.
Nemendur í Hagaskóla létu vel í sér heyra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert